Áframhaldandi starfsemi gamla apóteksins á Ísafirði tryggð.
Fréttatilkynning
Nr. 2/ 2003
Dómsmálaráðherra, undirritar samkomulag um áframhaldandi starfsemi gamla apóteksins á Ísafirði fyrir hönd ráðuneytisins
Sólveig Pétursdóttir, dómsmálaráðherra, undirritaði í dag samkomulag um áframhaldandi starfsemi gamla apóteksins á Ísafirði fyrir hönd ráðuneytisins. Heilbrigðisráðherra og félagsmálaráðherra undirrituðu samkomulagið f.h. ráðuneyta sinna. Bæjarstjórinn á Ísafirði gerði samkomulagið fyrir hönd Ísafjarðarbæjar.
Samið er um að ráðuneytin þrjú og Ísafjarðarbær kosti áfram tilraunaverkefni vegna starfsemi Gamla apóteksins á Ísafirði. Er tilraunaverkefnið framhald á þeirri starfsemi sem verið hefur í Gamla apótekinu, samanber framlögð markmið þess. Um er að ræða forvarnarverkefni, sem tekist hefur að fá ýmsa lykilaðila til að vinna að, m.a. lögreglu, félagsmálayfirvöld, félagsmiðstöðvar skóla, foreldrafélög, heilsugæslu og fleira.
Í Gamla apótekinu getur ungt fólk á svæðinu komið saman og sinnt áhugamálum sínum án vímuefna. Starfsemi Gamla apóteksins er mjög metnaðarfull, sérsniðin að þörfum ungs fólks í þroskandi, skapandi, heilbrigðu og krefjandi umhverfi. Hver einstaklingur á að fá að njóta sín sem fullgildur þátttakandi í starfseminni á sínum eigin forsendum, svo framarlega sem þær stangast ekki á við grundvallarreglur starfseminnar.
Sólveig Pétursdóttir, dómsmálaráðherra kvað við undirritun samkomulagsins, að rekstur Gamla apóteksins byggðist á mjög metnaðarfullu forvarnarstarfi gegn vímuefnum, sem væri til mikillar fyrirmyndar. Árangur í baráttunni gegn vímuefnum næðist með samstilltu átaki lykilaðila og kvað mikinn árangur hafa náðst í þeirri baráttu á Ísafirði, m.a. með góðum samskiptum lögreglunnar við Gamla apótekið. Greinilegt væri að mikið og gott starf hefði verið unnið og væri það klárlega vel metið í byggðarlaginu, og nefndi í því sambandi að Hlynur Snorrason lögreglufulltrúi í lögreglunni á Ísafirði, hefði verið kosinn Vestfirðingur ársins fyrir þrotlaust starf hans að forvörnum gegn fíkniefnum.
Hver aðila samkomulags þessa mun veita í verkefnið 1,5 milljónum króna á ári í tvö ár, fyrst árið 2003. Að þeim tíma liðnum verður árangur verkefnisins metinn og frekari stuðningur ofangreinda aðila ákvarðaður í ljósi þess mats.
Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
31. janúar 2003.
31. janúar 2003.