Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 25. - 31. janúar

Fréttapistill vikunnar
25. - 31. janúar 2003



Framkvæmdastjórn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hefur tilnefnt í starf aðalframkvæmdastjóra stofnunarinnar

Framkvæmdastjórn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar tilnefndi á fundi sínum í vikunni Dr. Jong-Wook Lee til að gegn starfi aðalframkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar til næstu fimm ára eða til ársins 2008. Gert er ráð fyrir að Dr. Jong-Wook Lee taki formlega við embættinu 21. júlí n.k. eftir staðfestingu Alþjóðaheilbrigðisþingsins í maí í vor. Tæki hann þá við starfinu af Gro Harlem Brundtland, aðalframkvæmdastjóra WHO, sem óvænt upplýsti síðla sumars í fyrra að hún myndi ekki sækjast eftir endurkjöri til næstu fimm ára þegar kjörtímabil hennar rynni út.
FRÉTTATILKYNNING...

Greinargerð lyfjadeildar LSH um hækkun lyfjakostnaðar
Lyfjadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur skrifað greinagerð til lækningaforstjóra um hækkun lyfjakostnaðar við Landspítala - háskólasjúkrahús. Vísað er í umræður og deilur um efnið í fjölmiðlum að undanförnu og segir að með greinargerðinni sé tilgangurinn að "greina frá sjónarhóli LSH ástæður hækkunarinnar og jafnframt að benda á ýmsa vankanta á því hvernig staðið er að verðlagningu lyfja". Gagnrýnt er að við ákvörðun lyfjaverðs sem lyfjaumboðsmenn sækja um til lyfjaverðsnefndar taki nefndin mið af verði viðkomandi lyfs í nágrannalöndunum og heimili síðan allt að 15% hærra verð en meðaltal þeirra landa sem skoðuð eru. Það sé óháð verði lyfsins og ef það er dýrt sé um umtalsverðar upphæðir að ræða. Spurt er hvort þessi sjálfvirki verðmunur sé eðlilegur og á hvaða rökum hann sé byggður. Einnig segir: "Smæð markaðarins og meiri flutnings- og dreifingarkostnaði hefur verið borið við en hvorugt stenst í dag, einkum og sér í lagi varðandi S-merkt lyf þegar viðskiptavinurinn er aðeins einn (LSH) og notkun lyfsins fyrirsjáanleg, birgðahald því auðvelt og fyrningar nánast engar. Það hlýtur að vera krafa spítalans að þessi regla verði endurskoðuð í ljósi þessa. Þá vaknar sú spurning hvort reglan, jafn gölluð og hún er, sé í heiðri höfð. Tafla um skráð alnæmislyf sýnir að verðmunurinn er oftast meiri en 15%, í sumum tilvikum miklu meiri og er ekki óeðlilegt að fara fram á skýringar og jafnframt að kanna hvort viðlíka munur sé á verði annarra lyfja."
NÁNAR...

Starfsemi Miðstöðvar tannverndar hefst formlega næstkomandi mánudag
Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra mun opna formlega Miðstöð tannverndar næstkomandi mánudag. Aðsetur miðstöðvarinnar er í húsakynnum Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur, Barónsstíg 47 (gengið inn frá Egilsgötu). Auk hans flytja Guðmundur Einarsson, forstjóri Heilsugæslunnar í Reykjavík og Helga Ágústsdóttir, formaður Tannverndarráðs stutt ávörp. Miðstöð tannverndar vinnur í náinni samvinnu við heilbrigðisyfirvöld að skipulagningu og framkvæmd tannverndar á landsvísu. Forvörnum er sinnt með því að vekja athygli og auka vitund foreldra, kennara og heilbrigðisstétta á málefnum sem snerta tannheilsu og tannvernd. Miðstöðin skipuleggur og miðlar fræðslu um málefni tannverndar í skólum landsins ásamt því að safna upplýsingum um tannheilsu barna og unglinga. Fræðsla fyrir aldraða, fatlaða og langveika verður efld og vægi tannverndar innan heilsuverndar aukið. Fylgst verður með þróun tannheilbrigðismála í landinu, unnið að reglubundnum könnunum og rannsóknum í samvinnu við vísindastofnanir. Gert er ráð fyrir að starfsemin eflist á næstu árum og stuðli þannig enn frekar að jákvæðri þróun á sviði tannverndarmála hér á landi.

Tannverndarvika 3. - 9. febrúar
Meðalneysla Íslendinga á sykri nemur 53 kílóum á hvert mannsbarn í landinu á ári. Gosdrykki þamba Íslendingar í stórum stíl eða um 160 lítra hver og einn að meðaltali á ári. Tannskemmdir voru tíðari meðal íslenskra barna fyrir nokkrum árum en almennt gerðist hjá börnum hinna Norðurlandaþjóðanna en talið er að tíðnin sé nú orðin svipuð. Rannsóknir á tannheilsu landsmanna skortir þó til staðfestingar á því. Nú stendur yfir stefnumótun á sviði tannheilbrigðismála innan heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og er stefnt að landskönnun á tannheilsu Íslendinga innan tíðar. Síðustu tvo áratugi hefur Tannverndarráð staðið fyrir tannverndardegi fyrsta föstudag febrúarmánaðar en að þessu sinni verður breytt af þeirri venju og heil vika helguð tannvernd, dagana 3. - 9. febrúar. Tannvernd af öllu tagi verður til umfjöllunar þessa daga og eru vonir bundnar við að fjölmiðlar leggi hönd á plóg til að gera tannverndarvikuna að sýnilegu átaki og fjalli vítt og breytt um tannheilsu, tannvernd og mikilvægi hennar. Nánari upplýsingar um tannverndarvikunar er að finna á heimasíðunni: http://www.tannheilsa.is.

Starfsemi á sviði forvarna í Gamla apótekinu á Ísafirði verður haldið áfram
Ráðuneyti heilbrigðis- og tryggingamála, dóms- og félagsmála hafa tekið höndum saman um að styrkja áframhaldandi starfsemi í Gamla apótekinu á Ísafirði. Um er að ræða forvarnarverkefni sem tekist hefur að fá ýmsa lykilaðila til að vinna að, s.s. lögreglu, félagsmálayfirvöld, félagsmiðstöðvar, skóla, foreldrafélög, heilsugæslu og fleira. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra undirritaði samkomulag vegna þessa fyrir hönd ráðuneytisins í dag. Gamla apótekið er menningarmiðstöð, þar sem áhersla er lögð á metnaðarfullt starf, sérsniðið að þörfum ungs fólks í þroskandi, skapandi, heilbrigðu og krefjandi umhverfi. Hver einstaklingur á að fá að njóta sín sem fullgildur þátttakandi í starfseminni á sínum eigin forsendum, svo framarlega sem þær stangast ekki á við grundvallarreglur starfseminnar. Hver aðili samkomulagsins mun veita í verkefnið 1,5 milljónum króna á ári í tvö ár, fyrst árið 2003. Að þeim tíma liðnum verður árangur verkefnisins metinn og frekari stuðningur ofangreindra aðila ákvarðaður í ljósi þess mats.
FRÉTTATILKYNNING...

Barnaspítali Hringsins opnaður og nýr vefur Barnaspítalans tekinn í notkun
Barnaspítali Hringsins var opnaður með viðhöfn í anddyri hans sunnudaginn 26. janúar 2003. Meðal viðstaddra voru forseti Íslands, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík. Nánar er sagt frá opnunarathöfninni á heimasíðu LSH. Í tilefni þessa var opnaður ný vefur Barnaspítalans á upplýsingavef LSH. Þar er að finna margs konar efni um starfsemina samkvæmt skipulagi sem þar verður. Þar er líka "Krakkahorn" þar sem teknar hafa verið saman krækjur á innlenda og erlenda krakkavefi.
NÁNAR...



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
31. janúar 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta