Kynning á nýjum námskrám
Kynning á nýjum námskrám fyrir aðstoðarfólk í leik- og grunnskólum
og félags- og tómstundabraut á vef menntamálaráðuneytisins
Til þeirra er málið varðar
Menntamálaráðuneytið hefur birt drög að nýjum námskrám námsbrautar fyrir aðstoðarfólk í leik- og grunnskólum og félags- og tómstundabrautar á vef sínum, menntamalaraduneyti.is
Aðstoðarfólk í leik- og grunnskólum skiptist í leiðbeinendur í leikskólum annars vegar og skólaliða og stuðningsfulltrúa í grunnskólum hins vegar. Starf skólaliða felur m.a. í sér umsjón með börnum í útivist og á matmálstímum, umsjón með skólahúsnæði og skyldum verkefnum. Starf leiðbeinenda í leikskólum er fyrst og fremst fólgið í umönnun, uppeldi og menntun barna á aldrinum eins til sex ára. Starf stuðningsfulltrúa er fólgið í að veita börnum sem þess þurfa sérstakan stuðning svo að þau geti sinnt sínu námi og stundað skólann. Námið hefst á tveggja anna sameiginlegu námi, samtals 36 einingum og brautskrást nemendur að því loknu sem skólaliðar. Ef þeir æskja þess að halda áfram námi velja þeir annað hvort námsbraut fyrir leiðbeinendur í leikskólum eða stuðningsfulltrúa í grunnskólum. Fyrri námsbrautin er samtals 69 einingar, en sú síðari er 72 einingar, og er þá einingafjöldi grunnnámsins talinn með auk 12 vikna starfsþjálfunar sem metin er til 12 eininga.
Nám á félags- og tómstundabraut er ætlað starfsfólki félagsmiðstöðva og skóla, íþrótta- og félagasamtaka. Störf þess eru fólgin í undirbúningi, skipulagningu og áætlanagerð er tengist tómstundum og félagslífi fólks á öllum aldri, svo og leiðbeiningum og stuðningi eftir því sem við getur átt. Meðalnámstími er þrjár annir, 65 einingar, auk 7 vikna starfsþjálfunar sem metin er til 7 eininga.
Námskrárdrögin verða til kynningar á framangreindu vefsvæði næstu fjórar vikurnar eða til 3. febrúar 2003. Á þeim tíma gefst hagsmunaaðilum og almenningi kostur á að senda inn athugasemdir og ábendingar um námskrána í heild, eða einstaka þætti hennar, til menntamálaráðuneytisins, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík. Einnig er hægt að senda athugasemdir á netfangið [email protected]
Að loknu umsagnarferlinu mun ráðuneytið gera þær lagfæringar á námskránum sem nauðsynlegar teljast, staðfesta þær og senda auglýsingu um gildistöku þeirra til birtingar í Stjórnartíðindum. Námskrárnar verða að því loknu birtar á námskrárvef ráðuneytisins.
Farið er fram á að efni þessa bréfs sé kynnt fyrir þeim sem það á erindi til.
(Janúar 2003)