Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2003 Forsætisráðuneytið

Samningur við Vesturfararsetrið

Samningur við Vesturfararsetrið

Frétt nr.: 3/2003

Á morgun, þriðjudaginn 4. febrúar, verður undirritaður samningur milli forsætisráðuneytisins og Vesturfarasetursins á Hofsósi (vestur.is). Athöfnin fer fram kl. 11:30 í Þjóðmenningarhúsinu og munu Davíð Oddsson, forsætisráðherra og Valgeir Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Vesturfarasetursins undirrita saminginn.

Vesturfarasetrið mun samkvæmt samningnum taka formlega að sér hlutverk upplýsinga- og þjónustumiðstöðvar fyrir afkomendur Vesturfara og aðra þá sem áhuga hafa á málefninu. Áhersla verður m.a. lögð á að veita Vestur-Íslendingum upplýsingar um rætur þeirra hér á landi, menningarlega og félagslega arfleifð, íslenska ættingja, sögu og búferlaflutninga til Vesturheims. Jafnframt verður leitast við að upplýsa Íslendinga um afdrif þeirra sem fluttust vestur um haf og afkomenda þeirra.

Vesturfarasetrið mun byggja upp nauðsynlegan gangnagrunn og safna þeim gögnum, ritum og bókum sem þarf til þess að geta veitt almennar upplýsingar um málefnið.

Fyrir áður talda þjónustu greiðir forsætisráðuneyti 10 milljónir króna af fjárlögum, árlega næstu fjögur árin.

Samningurinn sem nú verður undirritaður tekur við af samningi sömu aðila frá árinu 1999 þar sem íslensk stjórnvöld veittu Vesturfararsetrinu umtalsverðan stuðning við að byggja upp gamla þorpskjarnann á Hofsósi og leggja grunn að öflugu starfi þjónustumiðstöðvar fyrir fólk af íslenskum ættum sem býr í Norður-Ameríku.

Starfsemi Vesturfarasetursins á Hofsósi hefur vaxið verulega á undanförnum árum og hefur því tekist að fylgja eftir auknum áhuga á samskiptum Íslands, Kanada og Bandaríkjanna sem skapaðist í kjölfar Landafundaafmælisins árið 2000. Áætlanir gera ráð fyrir að 12-15 þúsund gestir muni heimsækja setrið á yfirstandandi ári.

Með þessum samningi vill forsætisráðuneytið efla starfsemi Vesturfarasetursins á Hofsósi ennfrekar og undirstrika mikilvægi þess að viðhalda þekkingu á sögu vesturferða og auðvelda samskiptin milli Íslendinga og fólks af íslensku bergi brotið sem býr í Vesturheimi.

Í Reykjavík, 3. febrúar 2003.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta