Skýrsla setts saksóknara um mál Magnúsar Leópoldssonar
Fréttatilkynning
Nr. 3/ 2003
Skýrsla setts saksóknara til dómsmálaráðherra um opinbera rannsókn samkvæmt 4. mgr. 66. gr. laga um meðferð opinberra mála á tildrögum þess að Magnús Leópoldsson var á sínum tíma grunaður um aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar í Keflavík og látinn sæta gæsluvarðhaldi vegna þess á fyrri hluta árs 1976.
Með bréfi dómsmálaráðherra þann 25. maí 2001 var Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður, settur sérstakur saksóknari til að annast opinbera rannsókn á tildrögum þess að Magnús Leópoldsson var á sínum tíma grunaður um aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar í Keflavík og látinn sæta gæsluvarðhaldi vegna þess á fyrri hluta árs 1976. Rannsóknin byggist á heimild í 4. mgr. 66. gr. laga um meðferð opinberra mála, en þar segir að þegar sérstaklega standi á sé ríkissaksóknara heimilt að mæla fyrir um rannsókn þótt ætla megi að refsingu verði ekki við komið, svo sem vegna þess að sök er fyrnd, ef ríkir almanna- og einkahagsmunir mæla með því.
Ríkissaksóknari hafnaði upphaflegri beiðni lögmanns Magnúsar Leópoldssonar um rannsókn og var sú ákvörðun hans kærð til dómsmálaráðherra. Ráðherra féllst á rannsóknarbeiðnina á grundvelli þess að ríkir almanna- og einkahagsmunir mæltu með frekari rannsókn málsins. Var þannig talið mikilvægt að skera úr um, að því marki sem unnt væri, hvort opinberir starfsmenn hefðu viðhaft ámælisverð og ólögleg vinnubrögð í tengslum við rannsókn málsins í ljósi ásakana þess efnis, enda væru slíkar ásakanir bersýnilega fallnar til þess að rýra traust almennings á lögreglu og íslensku réttarvörslukerfi jafnvel þótt að sakir væru fyrndar. Þegar einnig var litið til augljósra hagsmuna rannsóknarbeiðanda af því að málið væri upplýst þótti skilyrðum 4. mgr. 66. gr. laga um meðferð opinberra mála vera fullnægt til að fallast á beiðni hans.
Í umræddu ákvæði laga um meðferð opinberra mála segir að ákveði ráðherra að rannsókn fari fram skuli setja sérstakan saksóknara til að fara með og rannsaka málið. Í setningarbréfi ráðuneytisins var settum saksóknara falið að rannsaka einkum þrjú eftirfarandi atriði í tengslum við tildrög þess að Magnús Leópoldsson var á sínum tíma grunaður um aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar í Keflavík og látinn sæta gæsluvarðhaldi vegna þess á fyrri hluta árs 1976 :
1. Aðdraganda þess að gerð var leirmynd sem byggð var á lýsingum vitna á manni sem kom í Hafnarbúðina í Keflavík 19. nóvember 1974 og hvernig staðið var að gerð hennar.
2. Hvort ný gögn og vísbendingar varpi nýju ljósi á tildrög þess að nafn Magnúsar Leópoldssonar kom fram í rannsókn á Guðmundar- og Geirfinnsmálum sem leiddi til handtöku hans í janúar 1976.
3. Ástæður þess að gæsluvarðhaldsvist Magnúsar Leópoldssonar stóð svo lengi sem raun varð á í ljósi þeirra gagna sem þá lágu fyrir í málinu.
Settur saksóknari hefur nú afhent ráðuneytinu skýrslu með niðurstöðum rannsóknar málsins, en við rannsóknina naut hann aðstoðar Baldvins Einarssonar lögreglufulltrúa. Dómsmálaráðuneytið hefur yfirfarið skýrsluna og telur hana ítarlega og vel unna. Það er álit ráðuneytisins að það markmið rannsóknarinnar að kanna ásakanir um að opinberir embættismenn hafi gerst sekir um tilbúning sönnunargagna, einkum leirmyndar, í þeim tilgangi að bendla Magnús Leópoldsson við hvarf Geirfinns Einarssonar hafi náðst að fullu. Er það jafnframt mat ráðuneytisins að með þessu hafi að fullu verið komið til móts við þá almanna- og einkahagsmuni sem áður ræðir. Telst rannsókn málsins af hálfu setts saksóknara því lokið og eru frekari aðgerðir af hálfu ráðuneytisins ekki fyrirhugaðar.
Meginniðurstaða setts saksóknara er að ekkert hafi komið fram við rannsóknina sem bendi til þess að rannsóknaraðilar hafi ætlað að láta umrædda leirmynd líkjast Magnúsi Leópoldssyni. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að nafn Magnúsar og veitingastaðarins Klúbbsins hafi snemma komið við sögu í rannsókn lögreglu á hvarfi Geirfinns Einarssonar, en erfitt sé að fullyrða hvort það hafi verið fyrir birtingu leirmyndarinnar eða ekki. Hins vegar sé ljóst að lögreglan hafi lagt mikla vinnu í að rannsaka allar hugsanlegar vísbendingar um hvarfið en einbeitti sér ekki að Magnúsi Leópoldssyni eða öðrum þeim sem tengdust rekstri Klúbbsins. Meginástæðan sem leiddi til handtöku Magnúsar og fleiri aðila og gæsluvarðhalds í kjölfarið árið 1976 er að mati setts saksóknara rangur framburður þriggja aðila.
Ráðuneytið hefur í tilefni af skýrslu setts saksóknara ritað ríkissaksóknara bréf, þar sem vakin er athygli á nýjum upplýsingum, sem fram komu undir rannsókn setts saksóknara, en varða atriði sem ekki féllu undir rannsókn hans. Er það gert með vísan til þess að ríkissaksóknari er lögum samkvæmt æðsti handhafi ákæruvalds í landinu og er það í hans höndum að meta hvort tilefni sé til frekari rannsóknar vegna upplýsinga svo sem þeirra sem hér um ræðir. Jafnframt fellur það í hlut ríkissaksóknara að leggja mat á, sbr. 2. mgr. 184. gr. laga um meðferð opinberra mála, hvort umræddar upplýsingar séu þess eðlis að gera beri dómfelldu í Hæstaréttarmálinu nr. 214/1978 sérstaklega grein fyrir þeim.
Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
5. febrúar 2003.
5. febrúar 2003.