Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2003 Mennta- og barnamálaráðuneytið

NORDPLUS-junior fyrir framhaldsskóla

Til skólameistara framhaldsskóla


NORDPLUS-junior fyrir framhaldsskóla


NORDPLUS-junior er heiti á norrænum sjóði sem styrkir samstarf framhaldsskóla á Norðurlöndum. Úr sjóðnum eru veittir styrkir til gagnkvæmra nemenda- og kennaraheimsókna milli framhaldsskóla á Norðurlöndum. Heimsóknirnar eru farnar til náms, kennslu og til að vinna að sameiginlegum verkefnum í skólastarfi. Sjóðurinn var stofnaður árið 1989 og hafa þúsundir nemenda og kennara á Norðurlöndum notið styrkjanna. Nemendur og kennarar íslenskra framhaldsskóla hafa hlotið styrki til margvíslegra og spennandi verkefna á þessum tíma.

Ný og rýmri tímamörk
Búið er að rýmka tímamörk þau sem hafa verið í gildi vegna styrkja úr Nordplus-junior. Til þessa hefur lágmarkdvöl heimsókna verið 2 vikur. Margir hafa talið það of langan tíma. Búið er að stytta þetta lágmark í 1 viku. Nú er heimilt að styrkja verkefni þar sem heimsóknir geta verið allt frá 5 skóladögum til 2 mánaða. Nýja lágmarkið tekur gildi þegar við næstu úthlutun en umsóknarfrestur vegna hennar er til 15. mars næst komandi.

Auðvelt að sækja um
Auðvelt er að sækja um styrki til verkefna í Nordplus-junior. Skólar þurfa að gera skriflegan samning við samstarfsskóla og fylla út einfalt umsóknareyðublað.

15. mars og 1. október
Umsóknir um styrki eru afgreiddar tvisvar á ári. Umsóknir sem berast fyrir 15. mars eru afgreiddar í maí og umsóknir sem berast fyrir 1. október eru afgreiddar í nóvember.

Upplýsingar og eyðublöð
Upplýsingar um styrkina sem sjóðurinn veitir, skilyrði umsókna og umsóknareyðublöð má fá á slóðinni http://www.programkontoret.se. Til að komast í samband við skóla eða til að auglýsa eftir samstarfsskólum má nota Kontaktgalleriet á http://www.odin.dk. Tengiliður við Nordplus-junior í menntamálaráðuneytinu er Þórir Ólafsson [email protected].

(Febrúar 2003)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum