Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2003 Innviðaráðuneytið

Stóraukið fjármagn til landkynningar erlendis

Samgönguráðherra hefur beitt sér fyrir því að nú er til ráðstöfunar, samkvæmt fjárlögum ársins í ár, meira fjármagn til landkynningar er nokkru sinni fyrr.

Stefnt er að því að verja hátt í hálfum milljarði króna til landkynningar erlendis á þessu ári í samvinnu við aðila í ferðaþjónustu og hefur jafnmiklum fjármunum aldrei áður verið varið til markaðs- og kynningarmála í íslenskri ferðaþjónustu á einu ári. Markmiðið er samræmt átak til að kynna Ísland erlendis með meiri krafti en nokkru sinni fyrr.

Samtals eru 325 milljónir króna til ráðstöfunar af hálfu stjórnvalda og þar af verður um 202 milljónum króna varið sérstaklega til kynningar á Íslandi á fjórum erlendum markaðssvæðum, gegn framlagi samstarfsaðila. Hefur verið auglýst eftir samstarfsaðilum til að leggja annað eins fjármagn á móti, þannig að a.m.k. 404 milljónum króna verði varið til kynningar á Íslandi á þessum svæðum, auk þess fjármagns sem fer til almennrar kynningar Ferðamálaráðs á þessum svæðum. Þessu til viðbótar er varið af hálfu stjórnvalda um 140 milljónum króna til almennra markaðsverkefna Ferðamálaráðs og samstarfsverkefnisins Iceland Naturally í Bandaríkjunum.

Mörkuð hefur verið stefna um hvar eigi helst að kynna Ísland á erlendum vettvangi á þessu ári og er nú leitað eftir samstarfsaðilum sem jafnframt leggi til fjármagn á móti. Um er að ræða fjögur markaðssvæði, þ.e. N-Ameríku, Bretlandseyjar, Norðurlöndin og meginland Evrópu. Ætlar Ferðamálaráð annars vegar að verja 40 milljónum króna, sem skiptast á tvö 20 milljóna króna verkefni, til kynningarmála á hverju þessara svæða og hins vegar er hægt að sækja um fjármagn í nokkur minni verkefni þar sem lágmarksframlag hvers samstarfsaðila er 1 milljón króna.

Við afgreiðslu umsókna verður m.a. tekið tillit til eftirfarandi þátta:
· Um verði að ræða almenn kynningar- og markaðsverkefni sem hvetji fólk til Íslandsferða.
· Sérstaklega verður litið til verkefna sem styrkja ferðaþjónustu um allt land á heilsársgrunni.
· Litið verður til útbreiðslu þeirra fjölmiðla sem áætlað er að nýta í umræddri kynningu.

Þeir samstarfsaðilar sem Ferðamálaráð lýsir nú eftir um ákveðin markaðs- og kynningarverkefni geta verið fyrirtæki, sveitarfélög, einstaklingar eða samstarfshópar þeirra. Með umsóknum skal fylgja útfærsla á viðkomandi kynningu og fjárhagsáætlun. Ekki verður um að ræða styrki vegna verkefna heldur fjármagn til sameiginlegra verkefna með Ferðamálaráði Íslands.

Þá verður meira fjármagni en nokkru sinni fyrr, 46 milljónum króna, varið til kynningarátaks innanlands. Nánar verður kynnt síðar hvernig þeim fjármunum verður varið.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum