Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2003 Matvælaráðuneytið

Fjögurra daga ferð Valgerðar Sverrisdóttur til Kanada

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 3/2003




Viðskiptasendinefnd íslenskra stjórnvalda og fyrirtækja undir forystu Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra hóf fjögurra daga ferð sína til Kanada í dag. Ferðin hefst í Ottawa þar sem ráðherra á fundi í ráðuneytum utanríkisviðskipta og iðnaðar. Meðal þess sem Valgerður Sverrisdóttir mun taka til umræðu á þeim fundum verða fríverslunarviðræður Kanada og EFTA-ríkjanna, sem hafa legið niðri sl. þrjú ár, og flugsamgöngur milli landanna. Í Ottawa verður einnig völdum fjárfestum boðið til hádegisverðar þar sem aðstæður á Íslandi verða kynntar.

Sendinefndin mun bjóða til móttöku í Montreal í húsakynnum OZ. Þangað verður boðið völdum fjárfestum til álíka kynningar og í Ottawa.

Þriðjudaginn 11. febrúar mun Valgerður Sverrisdóttir heimsækja álver Alcoa í Quebec (Deschambault). Um er að ræða eitt nýjasta álver Alcoa og er að svipaðri gerð og Fjarðaál, sem Alcoa mun byggja í Reyðarfirði. Þar munu meðal annarra taka á móti ráðherra Bernt Reitan, yfirmaður álframleiðslu Alcoa og Mike Baltzell aðalsamningamaður Alcoa um byggingu álvers á Íslandi.

Miðvikudaginn 12. febrúar kemur Valgerður til móts við 14 íslensk fyrirtæki sem þá verða komin til Halifax í Nova Scotia-fylki. Þar verður boðað til kynningarfundar þar sem annars vegar verður farið yfir rekstraraðstæður á Íslandi og hins vegar munu íslensk fyrirtæki kynna starfsemi sína. Til fundarins er boðið kanadískum fyrirtækjum sem áhuga hafa á starfsemi þeirra íslensku fyrirtækja sem taka þátt í ferðinni.

Þá mun Valgerður Sverrisdóttir eiga fund með Cecil Clarke, ráðherra atvinnuþróunarmála í Nova Scotia, en hún er í hans boði í Nova Scotia-fylki. Formlegt samstarf er milli iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins á Íslandi og atvinnuþróunarráðuneytis Nova Scotia. Cecil Clarke sótti Ísland heim sl. haust. Valgerður Sverrisdóttir mun einnig eiga fund með ráðherra ferðamála og ráðherra samgöngumála í fylkisstjórn Nova Scotia.

Í heimsókn sinni til Nova Scotia mun Valgerður Sverrisdóttir leggja áherslu á aukið samstarf fyrirtækja og viðskipti milli svæðanna. Ein meginforsenda að það takist er að treysta samgöngur milli Íslands og Kanada.
Reykjavík, 10. febrúar 2003.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum