Verksmiðja til framleiðslu á rafmagnsþéttum
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 2/2003
Síðustu daga hafa japanskir aðilar dvalið hér á landi til að kanna aðstæður til rekstrar verksmiðju til framleiðslu á rafmagnsþéttum. Sendiráð Íslands í Japan hefur átt samskipti við þessa aðila þar í landi og sá um undirbúning heimsóknarinnar í samvinnu við Fjárfestingarstofu – orkusvið. Hafa þessir aðilar skoðað aðstæður hér á landi á Reykjanesi, í Hafnarfirði og á Akureyri. Ennfremur eru þeir að skoða möguleika á staðsetningu í öðrum löndum Evrópu. Málið er á algjöru frumstigi og felst eingöngu í öflun gagna og könnun á staðháttum. Engin ákvörðun liggur fyrir um að skoða Ísland frekar sem fjárfestingarkost og né heldur hver þeirra þriggja staða sem hér hafa verið skoðaðir verði þá fyrir valinu.
Þéttar af því tagi sem framleiddir yrðu í þessari verksmiðju eru notaðir í rafeindaiðnaði um allan heim og markaðurinn því stór. Iðnaðurinn er hluti af hátækniiðnaði með mikla framtíðarmöguleika í fullvinnslu á þéttum til útflutnings, og er án efa áhugaverður fyrir Ísland.
Fulltrúar japanskra fyrirtækja á sama markaði hafa áður kannað aðstæður hér á landi til framleiðslu rafmagnsþétta, síðast í janúar á síðasta ári.
Reykjavík 7. febrúar 2003