Breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga
Félagsmálaráðherra, Páll Pétursson, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002.
Um er að ræða tvær breytingar á gildandi lögum. Lagt er til að orðskýringargrein laganna verði breytt og tekin upp skýring í nýjum lögum um útlendinga á orðinu búsetuleyfi. Þetta er lagt til svo að samræmi ríki á milli laga um atvinnuréttindi útlendinga og laga um útlendinga.
Einnig eru lagðar til breytingar á undanþáguákvæði í 14. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Þær breytingar leiða af gildistöku á nýjum stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA). Samkvæmt breytingunni munu Svisslendingar njóta hérlendis sömu atvinnuréttinda og aðrir borgarar í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Einnig verður fyrirtækjum í EFTA ríkjum heimilt að senda borgara í ríkjum utan EES hingað til lands til þjónustustarfa í allt að 90 starfsdaga á almanaksári. Þetta er háð því skilyrði að hlutaðeigandi útlendingur hafi í útsendingarlandinu ígildi óbundins atvinnuleyfis, sbr. 11. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga.