Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Endurskoðun laga um vatnsveitur sveitarfélaga

Félagsmálaráðherra hefur mælt fyrir á Alþingi frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, með síðari breytingum. Frumvarpið felur í sér ýmis nýmæli er varða eignarhald og rekstur vatnsveitna en einnig eru gjaldtökuákvæði gildandi laga einfölduð.

Helstu breytingar sem frumvarpið felur í sér eru eftirfarandi:

    · Lögð er til breyting á 2. gr. laganna, þannig að sveitarstjórn hafi val um rekstrarform vatnsveitu sem hún rekur.
    · Lagt er til að eigandi vatnsveitu geti áskilið sér allt að 7% arð af eigin fé vatnsveitu.
    · Lagt er til að kveðið verði á um heimild sveitarstjórnar til að framselja tímabundið einkarétti til að reka vatnsveitu, þó eingöngu til fyrirtækja eða stofnana sem að meirihluta eru í eigu ríkis eða sveitarfélaga.
    · Kveðið er á um skyldu vatnsveitu til vatnsöflunar vegna brunavarna og slökkvistarfs og jafnframt gjaldtökuheimild ef ráðast þarf í sérstakar ráðstafanir og kostnað vegna þessa.
    · Lagt er til að í stað orðsins "aukavatnsgjald" verði talað um notkunargjald, sem samheiti yfir alla vatnsnotkun til annars en venjulegra heimilisþarfa, og að afnumið verði ákvæði í gildandi lögum um að hámark aukavatnsgjalds skuli ákveðið í reglugerð sem ráðherra setur. Þess í stað miðast gjaldtaka vatnsveitna við almenn sjónarmið um þjónustugjöld, sbr. 9. gr. frumvarpsins.
    · Miðað er við að stjórn vatnsveitu verði falið ákvörðunarvald til að ráða sem flestu um daglega stjórnun vatnsveitu. Þar sem ekki er skipuð stjórn verður ákvörðunarvald eftir sem áður hjá sveitarstjórn sem á og rekur vatnsveitu.

    Hafa samband

    Ábending / fyrirspurn
    Ruslvörn
    Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum