Börn reykja minnst á Vestfjörðum
13. febrúar 2003
Börn reykja minnst á Vestfjörðum
Grunnskólanemar á Seltjarnarnesi, Ísafirði og í Vestmannaeyjum á aldrinum 12 til 16 ára reykja minnst barna á landinu en þar reykja innan við 2% barna á þessum aldri. Þetta kemur fram í könnun sem héraðslæknar gerðu í fyrravor í samvinnu við Krabbameinsfélag Reykjavíkur með stuðningi Tóbaksvarnanefndar. Annars staðar er ástandið ekki eins gott en þar reykja að meðaltali um 6,8% grunnskólanema á aldrinum 12-16 ára. Þessi tala var 11,4% árið 1998 og hefur því lækkað mikið. Í Reykjavík var hlutfallið 7,7% árið 2002 en hafði verið 32,0% árið 1974.
Könnunin var gerð í apríl í fyrra og náði til rúmlega tuttugu þúsund nemenda á aldrinum 10-16 ára um land allt. Var hún sambærileg við kannanir sem gerðar hafa verið á fjögurra ára fresti, á landsvísu síðan 1990 og í Reykjavík síðan 1974.
Helstu niðurstöður fyrir landið í heild sýna að nú reykja 7,0% pilta og 6,5% stúlkna, og er þá miðað við allar reykingar í aldurshópnum 12-16 ára. Ef aðeins er litið á daglegar reykingar lækkar hlutfallið hjá piltum í 5,4% og hjá stúlkum í 3,7%.
Minnst er reykt á Vestfjörðum (3,6%), síðan kemur Vesturland (4,5%), Norðurland eystra (4,9%), Suðurland (5,9%), Norðurland vestra (6,6%), Reykjanes og Austurland (7,3%), en mest er um reykingar á þessum aldri í Reykjavík (7,7%). Frá könnuninni fjórum árum áður hafa reykingar minnkað á öllum landssvæðum nema á Austurlandi. Af einstökum kaupstöðum koma Seltjarnarnes, Ísafjörður og Vestmannaeyjar best út, þar reykja innan við 2% nemenda á aldrinum 12-16 ára.
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _
Nánari upplýsingar eru birtar í meðfylgjandi skjali, meðal annars er þar sýndur samanburður á reykingum 12 - 16 ára grunnskólanema eftir landssvæðum á árunum 1974 - 2002:
> Reykingar grunnskólanema