Nr. 1/2003 - Fréttatilkynning frá utanríkisráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti.
Nr. 01/2003
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti
________
Fulltrúar Íslands munu mótmæla þeirri málamiðlunartillögu, sem formaður samninganefndar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um landbúnaðarmál hefur kynnt þegar hún verður tekin til umfjöllunar á fundi nefndarinnar í Genf dagana 24.-28. þ.m. Tillagan þykir róttæk og gengur í veigamiklum atriðum mun lengra en málflutningur Íslands og annarra EFTA ríkja, ESB, Japans, Kóreu og fleiri samningsaðila hefur gefið tilefni til. Verður að telja hana illa til þess fallna að skapa grundvöll að málamiðlun þar sem ekki verður séð að hún gæti að jafnvægi ólíkra hagsmuna í viðræðunum. Af hálfu Íslands og fjölmargra annarra ríkja hefur verið lögð rík áhersla á að yfirstandandi umbótaferli í landbúnaði taki tillit til ýmissa þátta sem ekki eru viðskiptalegs eðlis og gefi landbúnaðinum og þeim sem hann stunda raunhæft tækifæri til aðlögunar að þeim breytingum sem aukið frjálsræði í landbúnaðarviðskiptum ber með sér. Tillaga formannsins er fjarri því að koma nægilega til móts við þessi sjónarmið.
Nýrri samningalotu var ýtt úr vör innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar á ráðherrastefnu stofnunarinnar í Doha í nóvember 2001. Samningalotan spannar öll svið viðskipta og mynda yfirstandandi viðræður um landbúnað hluta af heildarsamningaviðræðum. Undanfarin misseri hafa samningsaðilar kynnt kröfur sínar og væntingar í landbúnaðarviðræðunum með það að markmiði að ná saman um aðferðafræði og reiknireglur þeirra fyrir lok mars nk. Viðræðunum sjálfum er svo ætlað að ljúka með öðrum þáttum heildarlotunnar á árinu 2005. Mikið hefur borið á milli þeirra tillagna sem kynntar hafa verið af hálfu hinna ýmsu samningsaðila og takast þar á mjög ólík sjónarmið.
Með tillögu sinni hefur formaður samninganefndarinnar kosið að koma að verulegu leyti til móts við þær kröfur sem settar hafa verið fram af hálfu ýmissa ríkja með mikla útflutningshagsmuni í landbúnaði. Gert er ráð fyrir verulegri lækkun á tollheimildum og töluverðri stækkun á gildandi innflutningskvótum. Á sama tíma leggur formaðurinn til mikinn niðurskurð á gildandi heimildum samningsaðila til að styðja við landbúnaðarframleiðslu innanlands. Ennfremur er gert ráð fyrir afnámi útflutningsbóta.
Tillögur formannsins hverfa að verulegu leyti frá þeirri aðferðafræði sem ríkt hefur við framkvæmd landbúnaðarsamnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar frá gildistöku hans árið 1995. Ísland og ýmsir aðrir samningsaðilar á borð við Noreg, ESB, Sviss o.fl. hafa talið eðlilegt að halda áfram með umbótaferlið á svipuðum nótum og lagt var af stað með til að tryggja stöðugleika og fyrirsjáanleika í áframhaldandi aðlögun landbúnaðarins að breyttum veruleika aukins frjálsræðis.
Í því sambandi hefur verið lögð rík áhersla á að tryggja að viðræðuferlið taki tillit til þátta sem ekki eru viðskiptalegs eðlis, s.s. byggðamála, umhverfismála, matvælaöryggis, dýravelferðar og fleiri mikilvægra gilda sem eru nátengd framkvæmd landbúnaðarstefnu hinna ýmsu ríkja. Ísland og fleiri ríki sem hafa svipaðra hagsmuna að gæta hafa þannig viljað sjá frekari útfærslu á þeim ákvæðum landbúnaðarsamningsins sem skilgreina rétt samningsaðila til að stunda stuðning sem er undanþeginn lækkunarskuldbindingum landbúnaðarsamingsins, ásamt því að tryggja áfram fullnægjandi heimildir til að viðhalda þeim stuðningi, sem hagkvæmastan verður að telja með tilliti til séraðstæðna hvers og eins. Tillögur formannsins koma að óverulegu leyti til móts við þessi sjónarmið, en hann gerir ráð fyrir síðari úrvinnslu þeirra. Sú nálgun hans hefur sætt gagnrýni, m.a. af hálfu Íslands.
Landbúnaður á Íslandi hefur tekið töluverðum breytingum á undanförnum árum á sama tíma og stuðningur við hann hefur dregist saman. Breytingar hafa m.a. falið í sér aukna hagræðingu til að lækka framleiðslukostnað og stuðla að lægra vöruverði til neytenda, jafnframt því að tryggja þeim sem landbúnað stunda viðunandi afkomu. Þessi þróun heldur áfram og er mikilvægt að tryggja greininni fyrirsjáanleika í starfsumhverfi hennar svo ávinningur þessarar aðlögunar skili sér jafnt til framleiðenda og neytenda. Verður ekki séð að tillögur formannsins feli í sér skilyrði fyrir jafna og farsæla aðlögun að þeim markmiðum sem landbúnaðarsamningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar stefnir að og sátt hefur ríkt um.
Tillaga formannsins hefur ekki verið tekin til umræðu meðal samningsaðila Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, en næsti fundur samninganefndarinnar verður í Genf dagana 24.-28. þ.m. Íslensk stjórnvöld munu beita sér fyrir því að meira tillit verði tekið til íslenskra hagsmuna í samningaviðræðunum.
- Reykjavík, 14. febrúar 2003