Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2003 Innviðaráðuneytið

Nýtt háhraðanet

14. febrúar 2003


Framhaldsskólar og símenntunarmiðstöðvar tengjast háhraðaneti



Frétt frá menntamálaráðuneyti

Nýtt háhraðanet, sem tengir saman framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar um land allt, verður formlega tekið í notkun í dag. Með háhraðanetinu, sem nefnt hefur verið FS-net, er lögð upplýsingahraðbraut fyrir menntastofnanir og nýjar forsendur skapaðar fyrir nám og kennslu.

FS-netið tengir saman framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar í landinu, samtals yfir 60 staði. Framhaldsskólar og höfuðstöðvar símenntunarmiðstöðva tengjast með 100 mbs flutningshraða en útibú símenntunarmiðstöðva með 2 mbs. Tilkoma netsins gjörbreytir öllum fjarskiptum menntastofnana og tryggir íbúum fámennra staða á landsbyggðinni góða aðstöðu til fjarnáms. FS-netið skapar grundvöll fyrir þróun náms og kennslu sem byggir á upplýsinga- og fjarskiptatækni.

FS-netið mun tengjast neti rannsóknastofnana og háskóla og styður þannig við áform menntamálaráðuneytisins um eflingu háskólanáms á landsbyggðinni en þar gegna símenntunarmiðstöðvar mikilvægu hlutverki. Með netinu verður stuðlað að auknu námsframboði um land allt og opnaðir möguleikar á að sérsníða nám til að auka fjölbreytni og aðlögun að þörfum ólíkra landsvæða.

Menntamálaráðuneytið stóð fyrir útboði á háhraðanetinu síðastliðið vor í samvinnu við framhaldsskóla, símenntunarmiðstöðvar og sveitarfélög. Ríkiskaup sá um framkvæmd útboðsins. Samið var við Skýrr hf. um uppbyggingu og rekstur netsins til fjögurra ára og er Landssími Íslands hf. samstarfsaðili Skýrr við verkið. Heildarkostnaður er um hálfur milljarður króna á fjórum árum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta