Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2003 Matvælaráðuneytið

Ráðstefnan Máttur og möguleikar.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 4/2003



Ráðstefna haldin í Norræna húsinu, fimmtudaginn 20. febrúar kl. 13:00.

Þann 20. febrúar nk. verður haldin ráðstefna um hönnun undir yfirskriftinni "Hönnun máttur möguleikar - Gildi hönnunar við framþróun, og samkeppnishæfni atvinnulífs". Á ráðstefnunni verða bæði innlendir og erlendir fyrirlesarar og fjallað verður um margvíslega þætti hönnunar, sem og tengsl hönnunar við samkeppnishæfni atvinnulífs.

Nú á tímum sífellt harðnandi samkeppni og styttri líftíma vöru og þjónustu, skiptir hönnun sífellt meira máli við framleiðslu og markaðssetningu. Á það jafnt við um frumhugmyndir til markaðsfærslu, auglýsingar, vöru og þjónustu. Góð hönnun eykur jafnframt verðmætasköpun og styrkir verulega samkeppnishæfni fyrirtækja. Stærri fyrirtæki eiga þó að öllu jöfnu auðveldara með að sinna hönnun en þau smærri. Þar sem íslensk fyrirtæki eru yfirleitt smá á erlendan mælikvarða er mikilvægt að þau hafi þekkingu sem og gott aðgengi að hönnun og ráðgjöf.

Fyrir nokkru skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, nefnd til að meta ávinning af rekstri hönnunarmiðstöðvar fyrir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf og koma með tillögur í því sambandi, en gert er ráð fyrir að nefndin skili tillögum innan skamms. Er ráðstefnan hluti af starfi nefndarinnar. Í nefndinni eiga sæti m.a. fulltrúar frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Form Ísland, Samtökum iðnaðarins, Listaháskóla Íslands, Aflvaka (fyrir Reykjavíkurborg). Ráðstefnan er einnig haldin í samvinnu við Norræna húsið vegna norrænu farandsýningarinnar Young Nordic Design: The Generation, sem þar stendur yfir.

Á undanförnum árum og misserum hafa verið stigin stór skref á sviði hönnunar hér á landi, þó að mörg þeirra dæma hafi ekki farið hátt í almennri umfjöllun. Þannig hefur mátt sjá stórstígar framfarir á sviði hönnunar m.a. í fataiðnaði, grafískri hönnun, þrívíðri hönnun og á mörgum fleiri sviðum, þar sem fyrirtæki keppa á alþjóðlegum mörkuðum. Um nokkurt skeið hefur starfað hönnunardeild við Listaháskóla Íslands, þar sem sjá má mikla grósku og það hefur eflt stöðu hönnunar hér á landi verulega. Stórstígar framfarir á sviði samskipta- og upplýsingatækni hafa einnig aukið möguleika hönnuða til að starfa á hinum alþjóðlega atvinnumarkaði.

Á ráðstefnunni verður fjallað um stefnur og strauma á sviði hönnunar á erlendum sem innlendum vettvangi. Fengnir verða fyrirlesarar í fremstu röð og má þar m.a. nefna;
  • Pekka Korvenmaa, prófessor University of Art and Design Helsinki,
  • Peter Butenschön, arkitekt. og fyrrverandi formaður Norsk Form og rektor arkitektaakademíunnar í Osló,
  • Halldór Gíslason arkitekt, deildarforseti hönnunardeildar Listaháskóla Íslands,
  • Hilmar Janusson framkvstj. tæknisviðs, Guðna Ingimarsson, verkfr. og Pálma Einarsson, iðnh. frá Össur hf.,
  • Steinunn Sigurðardóttur, lektor við LHÍ og fatah., sem starfað hefur m.a. fyrir Flugleiðir og GUCCI o.fl.,
  • Guðmundur O. Magnússon, prófessor við hönnunardeild LHI & grafískur hönnuður.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir mun setja ráðstefnuna, og fulltrúi borgarstjórnar Reykjavíkur, mun flytja ávarp við lok ráðstefnunnar.

Ráðstefnan verður haldin í Norræna húsinu, fimmtudaginn 20. febrúar og hefst kl. 13:00. Ráðstefnan er öllum opin og er aðgangur ókeypis.
Reykjavík, 14. febrúar 2003

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum