Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nefnd um aðgerðir gegn ofbeldi gagnvart konum

Félagsmálaráðherra skipaði 22. janúar sl. samráðsnefnd um aðgerðir gegn ofbeldi gagnvart konum. Í nefndinni eiga sæti:

  • Erlendur Kristjánsson, deildarstjóri í menntamálaráðuneyti,
  • Dís Sigurgeirsdóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneyti,
  • Jón Sæmundur Sigurjónsson, hagfræðingur í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti,
  • Sigrún Jónsdóttir bæjarfulltrúi, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í nefndinni, og
  • Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, lögfræðingur í félagsmálaráðuneyti, sem jafnframt hefur verið skipuð formaður.

Nefndin er skipuð til fjögurra ára frá 1. janúar 2003 til 1. janúar 2007.

Hlutverk nefndarinnar er að samhæfa aðgerðir stjórnvalda á ólíkum fagsviðum sem eru til þess fallnar að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum. Lagt verður fyrir hana að hafa yfirsýn yfir aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til og vera til ráðuneytis um frekari úrbætur á þessu sviði. Enn fremur er nefndinni ætlað að skipuleggja herferðir og ef þurfa þykir framkvæmdaáætlanir sem hefðu það markmið að opna augu almennings fyrir ofbeldi gegn konum og því samfélagsböli sem af því leiðir.

Ofbeldi gegn konum er staðreynd í öllum samfélögum. Það tekur á sig hinar ýmsu myndir, svo sem heimilisofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, mansal og ofbeldi á vinnustöðum. Málefnið snertir því starfssvið nokkurra ráðuneyta og einnig sveitarfélögin. Reynslan hefur sýnt að afleiðingar ofbeldis gegn konum eru mjög kostnaðarsamar fyrir samfélagið. Verður ekki annað séð en að fjármunum sé vel varið í forvarnir þar sem stefnt er að því að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum. Þótt ýmislegt hafi áunnist á síðustu árum í baráttunni gegn þessu félagslega vandamáli er enn aðgerða þörf sem kallar á samstarf margra aðila. Skipun samráðsnefndarinnar er liður í að bregðast við þeirri þörf.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum