Samstarfsnefnd um veitingu atvinnuleyfa útlendinga
Með nýjum lögum nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, sem tóku gildi um síðustu áramót, urðu breytingar á lögskipuðu samráði félagsmálaráðuneytisins við helstu samtök á vinnumarkaði um framkvæmd laga um atvinnuréttindi. Samkvæmt eldri löggjöf hvíldi sú skylda á félagsmálaráðuneytinu að leita árlega álits helstu samtaka atvinnurekenda og launafólks á stefnu sem stjórnvöld fylgdu við veitingu atvinnuleyfa til ráðningar á útlendingum til starfa á Íslandi. Þessi skylda féll niður með nýju lögunum. Þess í stað skal félagamálaráðherra skipa samstarfsnefnd sem í eiga sæti fulltrúar Vinnumálastofnunar, Útlendingastofnunar, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Félagsmálaráðherra skipar formann án tilnefningar. Í athugasemdum við frumvarpið sem nú er orðið að lögum er tekið fram að hlutverk nefndarinnar verði víðtækt og varði almenn álitamál í tengslum við veitingu atvinnuleyfa. Einnig skal nefndin kölluð saman þegar beiðnir berast til Vinnumálastofnunar um atvinnuleyfi fyrir hópa útlendinga. Félagsmálaráðherra skipaði nefndina til tveggja ára 22. janúar sl. og er hún þannig skipuð:
Aðalmenn:
Ásta S. Helgadóttir, lögfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, formaður
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar,
Jóhann Jóhannsson, framkvæmdastjóri Útlendingastofnunar,
Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, og
Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumálasviðs Samtaka atvinnulífsins,
Til vara:
Gylfi Kristinsson, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu,
Heiða Gestsdóttir, lögfræðingur hjá Vinnumálastofnun,
Georg Lárusson, forstjóri Útlendingastofnunar,
Magnús M. Norðdahl, lögmaður Alþýðusambands Íslands og
Jón H. Magnússon, lögfræðingur Samtaka atvinnulífsins.