Nýir vikulegir fréttapistlar - 2003 - 15. - 21. febrúar - nánar
Úr svari heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við
munnlegri fyrirspurn á Alþingi 19. febrúar 2003
Í svari Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, við fyrirspurnum Rannveigar Guðmundsdóttur, þar sem þingmaðurinn spurði m.a. um upplýsingamiðstöð fyrir aðstandendur ungra fíkniefnaneytenda við barna- og unglingageðdeild Landspítala-háskólasjúkrahúss og hvernig þjónustu væri háttað við foreldra barna og unglinga í vímuefnavanda væri háttað kom fram að ekki væri rekin upplýsingamiðstöð við barna-og unglingageðdeil LHS. Sagði ráðherra m.a. í svari sínu:
- Barna- og unglingageðdeildin einbeitir sér að unglingum með geðraskanir og sinnir fíkniefnaneytendum og aðstandendum þeirra fyrst og fremst með ráðgjöf við Stuðla og unglingadeild SÁÁ á Vogi, en á þessum stöðum er veitt þjónusta við þá sem eiga við fíkniefnavanda að glíma. Á BUGL er aðstandendum sjúklinga veitt margs konar ráðgjafaþjónusta, en ekki eru áform um að stofna þar upplýsingamiðstöð.
Þjónusta við þennan hóp er margvísleg því þegar börn og unglingar lenda í vímuefnavanda er samband haft við foreldra eða forráðamenn. Á meðan á meðferð stendur eru foreldar eða forráðmenn oftast hafðir með í ráðum, en að sjálfsögðu ræðst sú samvinna af mörgu, m.a. aldri ungmennis og ýmsum félagslegum aðstæðum.
Á Vogi er eins og kunnugt er rekin mikil þjónusta við þennan hóp barna og unglinga. Þar er haldið saman upplýsingum um eðli og umfang þjónustunnar og er gerð ítarleg grein fyrir þessu á heimasíðu SÁÁ.
Þá standa aðstandendum neytenda sem ekki eru í meðferð ýmis ráð til boða.
Fjölskyldumiðstöð veitir fjölskyldum í ýmsum vanda ráðgjöf. Hér getur verið um að ræða samskiptavanda, skilnaðar- og forsjármál, vímuefnaneyslu, hegðunar- og þroskavanda barna, vanda vegna þverrandi áhuga barna á námi og vegna barna sem sýna andfélagslega hegðun af einhverju tagi, svo nokkur dæmi séu tekin. Ráðgjöfin er endurgjaldslaus.
Fjölskyldumiðstöðin er samstarfsverkefni Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, félagsmálaráðuneytisins, heilbrigðis- og tryggingamála-ráðuneytisins og Félagsþjónustunnar í Reykjavík. Árið 2002 komu 290 fjölskyldur á Fjölskyldumiðstöð. Það er 4% fjölgun mála frá árinu 2001. Ráðgjafar Fjölskyldmiðstöðvar veittu 791 viðtöl, en þau voru 457 árið 2001, sem er aukning um 73%.
Samkvæmt upplýsingum frá foreldrasamtökum Vímulausrar æsku var foreldrum barna og unglinga í vímuefnavanda veitt um 1300 viðtöl árið 2002. Þar sem foreldrar hvers barns koma yfirleitt tvisvar til þrisvar í viðtal má áætla að foreldrar um 500 barna hafi notið þar aðstoðar. Hjá Vímulausri æsku starfar einn sálfræðingur í fullu starfi við ráðgjöf en félagsráðgjafi og tveir foreldrar sem starfa hjá samtökunum veita einnig viðtöl. Viðtal hjá sálfræðingi kostar 500 kr. skiptið en þjónusta hinna er endurgjaldslaus.
Tekjur Vímulausrar æsku árið 2001 voru um 13.6 milljónir kr. Af þeim komu um 7.8 milljónir kr. úr ríkissjóði.
Fyrir utan þá þjónustu sem Fjölskyldumiðstöð og Vímulaus æska veitir standa eftirtalin ráðgjafarúrræði öllum til boða og hjá þeim er þekking fyrir hendi um hvar er hægt að fá nánari þjónustu:
? Fjölskylduþjónusta þjóðkirkjunnar.
? Hitt húsið í Reykjavík
? SÁÁ
? Stígamót
? Rauðakrosshúsið, trúnaðarsími
? Félagsþjónusta sveitarfélaga, t.d. hverfaskrifstofur í Reykjavík
? Heilsugæslustöðvar um allt land
? Námsráðgjafar, skólahjúkrunarfræðingar, prestar og lögregla
Virðulegi forseti.
Það er ljóst að margvísleg þjónusta stendur aðstandendum ungra fíkniefnaneytenda til boða, þótt eflaust mætti gera betur. Þessi þjónusta er án endurgjalds fyrir þá sem notfæra sér hana, og er það val þessara aðstandenda hvort þeir færa sér í nyt þau tilboð um þjónustu sem ég hef hér lýst.
(Talað orð gildir)