Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2003 Mennta- og barnamálaráðuneytið

140 ára afmæli Þjóðminjasafns

Ávarp Tómasar Inga Olrich, menntamálaráðherra
140 ára afmæli Þjóðminjasafns
24. febrúar 2003



Tómas Ingi Olrich
Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra
Í ár eru 140 ár frá því Þjóðminjasafn Íslands var stofnað.

Eins og kunnugt er hefur staðið yfir viðamikil uppbygging á starfsaðstöðu og starfsgrundvelli Þjóðminjasafnsins síðustu ár. Árangur þeirrar uppbyggingar mun sjást þegar hús Þjóðminjasafnsins með nýjum grunnsýningum verður enduropnað á sumardaginn fyrsta 2004. Þá verður lokið endurbótum á Safnhúsinu og búið að setja upp veglegar sýningar á helstu gersemum þjóðarinnar þar sem sögð verður saga lands og þjóðar frá landnámi til dagsins í dag.

Þjóðminjasafn Íslands er vísinda- og þjónustustofnun í eigu íslenska ríkisins. Því er ætlað að vera miðstöð þjóðminjavörslu og rannsókna á menningarsögulegum minjum í landinu. Hlutverk þess er að auka og miðla þekkingu á menningararfi íslensku þjóðarinnar frá upphafi til vorra daga og stuðla að því að sem flestir geti haft gagn og gaman af sögu og minjum lands og þjóðar um ókomin ár.

Þjóðminjasafn Íslands er virt og viðurkennd miðstöð þjóðminjavörslu á Íslandi og öflugur þátttakandi í íslensku menningar- og menntastarfi. Íslendingar eiga merka sögu, sem þeir geta verið stoltir af. Með starfi sínu leggur Þjóðminjasafnið sitt af mörkum til þess að styrkja sjálfsmynd þjóðarinnar og efla þekkingu hennar á eigin sögu og minjum.

Miklar breytingar hafa átt sér stað í Þjóðminjasafni Íslands vegna endurbyggingar á Safnahúsinu við Suðurgötu þar sem fastasýningar safnsins hafa verið og munu verða í framtíðinni. Þar verða grunnsýningar Þjóðminjasafnsins, sérsýningasalur, fyrirlestrasalur, kaffistofa og safnbúð. Grunnsýningar Þjóðminjasafnsins munu gera grein fyrir menningarsögu þjóðarinnar frá landnámi til vorra daga og þar verða sýndir allir merkustu gripir safnsins.

Árið 1998 var ráðist í gagngera viðgerð og breytingar á húsinu að innan. Allir gripir voru fluttir í vandaðar geymslur, en starfsfólk fékk aðstöðu á tveim stöðum, í Kópavogi og Garðabæ. Ákveðið var að hanna nútímalega grunnsýningu í stað þeirrar sem staðið hafði lítt breytt í hartnær hálfa öld. Öll hin margvíslega starfsemi safnsins hefur samt verið í fullum gangi, önnur en sjálf grunnsýningin, sem vissulega er helsta ásjóna safnsins. Sjóminjasafnið í Hafnarfirði og lækningaminjasafnið í Nesstofu hafa verið opin og safnið hefur átt hlut að ýmsum sérsýningum víða um land og erlendis á þessu tímabili. Má meðal annars geta veglegrar Víkingasýningar, sem ferðast hefur um Bandaríkin. Á þeirri sýningu hafa um 4 milljónir gesta skoðað muni úr fórum Þjóðminjasafns Íslands.

Þjóðminjasafnið er bæði vísindastofnun og þjónustustofnun. Fengist er við varðveislu, rannsóknir, en ekki síst við upplýsingamiðlun og aðra þjónustu, en mjög mikið er leitað til safnsins með hvers kyns fyrirspurnir og þekkingarleit. Heimsókn skólabarna hefur verið fastur liður í starfi safnsins um áratuga skeið og á síðari árum var stunduð regluleg safnkennsla. Margir háskólanemar í sagnfræði og þjóðfræði finna sér einnig verkefni innan safnsins, einkum í tengslum við lifnaðarhætti á fyrri tíð. Þá hefur heimsókn gömlu íslensku jólasveinanna síðustu 13 daga fyrir jól orðið einkar vinsæl meðal yngstu safngesta. Erlendir ferðamenn eru drjúgur hluti safngesta á sumrum, og er oft óskað eftir sérstakri leiðsögn fyrir þá.

Hús Þjóðminjasafnsins með nýju sýningunni mun opna sumardaginn fyrsta 2004. En nú á 140 ára afmælisári verður efnt til sýninga um sögu safnsins, þar sem listgripir og munir úr fórum Þjóðminjasafnsins verða sýndir, m.a. í Listasafninu á Akureyri og í risi Þjóðmenningarhússins þar sem safnið var eitt sinn til húsa. Einnig verða merkar ljósmyndir sýndar í sýningarsal Listasafns Reykjavíkur. Afmælisárið er þó fyrst og fremst helgað undirbúningi opnunar Þjóðminjasafns næsta vor með hönnun sýninga, útgáfu og forvörslu hinna ómetanlegu minja sem Þjóðminjasafn allra landsmanna varðveitir; 60 þúsund gripir, 44 hús um allt land og 2 milljónir ljósmynda við bestu skilyrði.

Safnhúsið við Suðurgötu var morgungjöf til þjóðarinnar við stofnun lýðveldis árið 1944 og fer því vel á því að Safnhúsið opni sumardaginn fyrsta árið 2004 þegar þjóðin fagnar lýðveldisafmæli og 100 ára afmæli heimastjórnar. Þar verður listahátíð sett í maí á næsta ári og í húsinu verður blómleg starfsemi sýninga, fræðslu, skemmtunar og menningarviðburða.
Nýtt Þjóðminjasafn mun auðga mannlíf okkar allra og er því tilhlökkunarefni fyrir landsmenn alla.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta