Nýtt frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum
Félagsmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi nýtt frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998.
Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu varða ákvæði VI. kafla laganna, er fjallar um fjármál sveitarfélaga og hlutverk eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Við gerð frumvarpsins var leitað leiða til þess að finna lausnir á þeim margvíslegu vandamálum sem stafa af breyttu rekstrarumhverfi sveitarfélaga og auknum aðgangi þeirra að fjármagni og hefur þar einkum verið litið til reynslu annarra Norðurlanda. Miða ákvæði frumvarpsins meðal annars að því að takmarka þátttöku sveitarfélaga á hlutabréfamarkaði og tryggja vandaða málsmeðferð við töku ákvarðana sem haft geta áhrif á fjárhag sveitarfélaga til lengri tíma litið.
Þær leiðir sem lagðar eru til í frumvarpinu miða því ekki að því að banna sveitarstjórnum að velja tilteknar leiðir við fjármálastjórn sveitarfélags heldur er lögð áhersla á að undirstrika að sveitarstjórnir verða ávallt að gæta ábyrgðar við meðferð fjármuna sveitarfélagsins og tryggja örugga ávöxtun þeirra.
Til að tryggja vandaða málsmeðferð við töku ákvarðana sem haft geta haft áhrif á fjárhag sveitarfélagsins á komandi árum og áratugum er kveðið á um það í frumvarpinu að sveitarstjórn verði ekki aðeins að afla álits sérfróðs aðila áður en ráðist er í meiri háttar framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins heldur gildi sú regla einnig um ýmsar aðrar ákvarðanir sem gilda eiga til langs tíma og hafa í för með sér verulegar skuldbindingar fyrir sveitarsjóð.
Einnig er kveðið á um það í frumvarpinu að sveitarstjórn beri að tilkynna eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga um ákvarðanir um sölu fasteigna sem falla undir veðsetningarbann 2. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga. Skal eftirlitsnefnd þá kanna fjárhagsleg áhrif sölunnar á fjárhag sveitarfélagsins og getur eftirlitsnefnd lagt til skilyrði um ráðstöfun söluandvirðis eða ávöxtun þess.
Þá er í frumvarpinu lögð aukin áhersla á það almenna hlutverk eftirlitsnefndarinnar að fylgjast með þróun fjármála sveitarfélaga og er m.a. lagt til að ákvæði 74.-80. gr. laganna, er varða eftirlit með fjármálum sveitarfélaga, verði gerð að sérstökum kafla til að undirstrika mikilvægi þeirra.
Aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu á VI. kafla sveitarstjórnarlaga eru þær að lagt er til að skylt verði að afgreiða fjárhagsáætlun næsta árs fyrir lok desembermánaðar, þ.e. áður en fjárhagsárið hefst, en samkvæmt gildandi lögum er ekki skylt að afgreiða fjárhagsáætlun fyrr en í lok janúarmánaðar. Þá er lagt til að tekin verði af tvímæli um að form þriggja ára áætlunar skuli vera á formi ársreiknings.
Að auki er að finna í frumvarpinu nýmæli sem kveður á um þagnarskyldu starfsmanna sveitarfélaga um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara. Ákvæðið er efnislega samhljóða ákvæði í 32. gr. laganna, að því er varðar þagnarskyldu kjörinna fulltrúa.
Loks er lögð til í frumvarpinu breyting á 44. gr. gildandi laga sem miðar að því að taka af vafa um heimildir sveitarstjórna til að fela nefndum, ráðum, stjórnum og öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins fullnaðarákvörðun mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins enda leiði slíkt til hagræðingar, skilvirkni og hraðari málsmeðferðar. Skilyrði eru að kveðið verði á um slíkt fyrirkomulag í samþykktum sveitarstjórnar, að mál varði ekki verulega fjárhag sveitarfélagsins og að ákvæði laga eða eðli máls mæli ekki sérstaklega gegn framsali.
Rétt er að geta þess að auk þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu stendur yfir í ráðuneytinu vinna við mótun reglna um meðhöndlun langtímaskuldbindinga í bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélaga. Lögð er áhersla á að sú vinna haldist sem næst í hendur við gildistöku frumvarps þessa.