Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2003 Matvælaráðuneytið

Ímynd jarðhitans í íslensku samfélagi. Erindi Valgerðar Sverrisdóttur á ráðstefnu Jarðhitafélagsins.

    Valgerður Sverrisdóttir
    iðnaðar- og viðskiptaráðherra


    Ímynd jarðhitans í íslensku samfélagi

    Erindi á ráðstefnu Jarðhitafélagsins


    Ágætu ráðstefnugestir!

    Fátt kom forfeðrum okkar meir á óvart er þeir námu hér land en að sjá gufu stíga víða upp af landinu er þeir kölluðu reyki, enda þekktu þeir þá ekki til þeirra náttúrufyrirbrigða að vatnsgufa stigi upp úr jörðu. Örnefni víða um land bera þess enda merki og þarf ekki nema að nefna nafn höfuðstaðarins í því tilviki. Víða var þó til forna nýttur laugarhiti bæði til þvotta og baða. Fram kemur í fornsögum, t.d. Laxdælu og Sturlungu, að á þeim tíma hafi laugarnar verið notaðar til þvotta og baða en einnig sinnt hlutverki eins konar samkomustaðar þar sem mannamót voru algeng. Hlutur kvenna við laugar hefur þó oft verið umdeildur en almennt er talið að þær hafi aðeins farið þangað til þvotta og ef til vill baða, en síður stundað þar mannamótin!

    Menn kunna að spyrja hvaða áhrif jarðhiti hafi haft á verðgildi jarða hér á landi fram eftir öldum. Rannsóknir hafa leitt í ljós að hverahiti hafi haft lítil eða jafnvel engin áhrif á verðgildi jarða allt fram á tuttugustu öldina. Menn hafi lagt meiri áherslu á að staðsetja býli nærri kaldavatnslindum til að afla drykkjarvatns til lífsbjargar fyrir fólk og fénað. Rannsóknir Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar á árunum 1752-1757 er fyrsta almenna athugun og lýsing á jarðhitaaðstæðum hér á landi. Fjölluðu þeir sérstaklega um jarðhitann í hinni merku ferðabók sinni og greindu m.a. frá borun á fyrstu jarðhitaholum hérlendis, bæði við Þeistareyki og Krísuvík. Þeir hvöttu landa sína til aukinnar notkunar á þessum auðæfum sínum og töldu nauðsynlegt að bæta aðstæður við laugar til baða meðal annars með því að koma þar upp húsnæði fyrir almenning.
    Lítið gerðist í þeim efnum fyrr en löngu síðar.

    Jón Hjaltalín, landlæknir, var ötull baráttumaður fyrir bættri baðmenningu og þrifnaði þjóðarinnar. Hann segir í grein í Nýjum félagsritum 1853: "Á fyrri tímum notuðu forfeður okkar hveravatnið í laugar sínar og var það samkvæmt þeirra tíða siðvenju um öll lönd, nú þykir það ekki ómaksins vert að lauga sig, heldur láta þeir skarnið sitja utan á sér alla ævi sína eins og það væri einhver dýrgripur."
    Ekkert varð af framförum á þessu sviði fyrr en um aldamótin 1900. Þá varð vart vakningar meðal þjóðarinnar á því að nýta laugar og hveri til baða, þvotta og sundiðkunar víða um land. Þessi áhugi varð m.a. til þess að víða hófust menn handa við að byggja sundaðstöðu við laugar meðal annars fyrir tilstuðlan ungmennafélagshreyfingarinnar. Varð þessi þróun á fyrstu áratugum síðustu aldar í raun fyrsta skrefið til aukins þrifnaðar og hreinlætis þjóðarinnar um alda skeið. Uppbygging sundaðstöðu víða um landið hefur haldist í hendur við aukna jarðhitanotkun landsmanna alla nýliðna öld og á þjóðin þar heimsmet miðað við íbúafjölda eins og á fleiri sviðum.

    Menn hafa leitað margra skýringa á því af hverju Íslendingar voru seinir til þess að hita híbýli sín með jarðhita allt fram á síðustu öld. Ástæður þess eru margar. Í fyrsta lagi má nefna að húsakynni voru þess eðlis að erfitt var að leiða heitt vatn inn í þau til hitunar. Þau voru afar ófullkomin og að stórum hluta til torfbæir, rök og köld og voru í raun eitt mesta heilbrigðisvandamál þjóðarinnar fram á 20. öldina. En um 1920 tók að rofa til, húsakynni landsmanna breyttust á fyrstu áratugum síðustu aldar og torfbæjum fækkaði. Um 1928 hafði um fjórðungur íbúða í Reykjavík miðstöðvarhitun og um svipað leyti hófst sú mikla framkvæmd að leiða vatn frá þvottalaugunum til bæjarins til hitunar í fyrstu húsunum. Þá ber í annan stað að nefna að á fyrstu þremur áratugum aldarinnar hafði tækniþekking landsmanna aukist verulega og þjóðin hafði á að skipa mönnum er gátu gert áætlanir um nýtingu jarðhitans. Í þriðja lagi má nefna að tæknin við flutning vatns hafði aukist mjög á fyrstu árum aldarinnar þannig að við vorum í stakk búin að gera þá byltingu að geta leitt heitt vatn um langan veg ef um verulega notkun væri að ræða. Í fjórða lagi má nefna að þjóðin lifði við örbirgð og sárustu fátækt allt fram á síðustu öld þannig að frumkvæði og fjármagn skorti til allra athafna. Loks má nefna að landsmenn lifðu öldum saman við afar þröngan húsakost þar sem brenna þurfti lífrænum efnum, mó og trjávið, til að elda og um leið varð sá hiti nýttur til upphitunar íveruhúsa fólksins auk hita frá bústofni. Ekki var annarra kosta völ til að lifa af. Niðurstaða mín af þessum hugrenningum er sú að allt fram til þess að fyrstu hitaveitur landsins tóku til starfa á fjórða áratug síðustu aldar hafi varla verið grundvöllur til þess að nýta hvera- og laugahita til hitunar húsakynna landsmanna vegna þeirra efnahagslegu og tæknilegu aðstæðna sem voru hér á landi.

    Hitaveitubyltingin byrjar á þriðja áratugnum. Það er nokkuð athyglisvert að á sama ári og Hitaveita Reykjavíkur tekur til starfa árið 1928 eru á sama tíma að komast á legg skólasetur á landsbyggðinni, að Laugarvatni, Flúðum og Reykjum í Árnessýslu, Laugum í Þingeyjarsýslu og Reykholti í Borgarfirði, sem öll voru staðsett við laugar eða hveri og húsnæði þeirra upphituð með hitaveitu. Alþingi hafði á árinu 1923 falið Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins, að hafa forgöngu um staðsetningu þessara skóla í samráði við heimamenn en reyndar gekk þar á ýmsu. Enginn vafi er á því að þeir nemendur er sóttu þessa skóla áratugum saman hafi sannfært sína kynslóð um þá gífurlegu umbyltingu er fólst í hitun húsnæðis með jarðhita í stað hinna frumstæðu og óhollu aðferða er fólk hafði búið við öldum saman við hitun híbýla sinna.

    Það kom síðan í hlut Jónasar Jónssonar, er var menntamála- og dómsmálaráðherra árin 1927-1932, að koma starfsemi flestra þessara skóla á laggirnar. Fáir eða engir alþingismenn höfðu verið jafn ákafir fylgismenn þess að reisa opinber mannvirki á stöðum þar sem jarðhita var að finna en Jónas. Hann var einn af fyrstu stjórnmálamönnum hér á landi að skilja þýðingu jarðhitans fyrir almenning. Um það bera vitni ræður hans allvíða og tillögur á Alþingi og í bæjarstjórn Reykjavíkur, en hann studdi með ráðum og dug hinar miklu framkvæmdir við aðveitu hitaveitunnar frá Reykjum á stríðsárunum. Sem ráðherra beitti hann sér einkum fyrir því að hita upp með hitaveitu þær opinberu byggingar er reistar voru í ráðherratíð hans. Því nefni ég nafn hans hér að það þurfti pólitískan og málefnalegan eldhuga til að kveikja áhuga almennings og margra stjórnmálamanna á mikilvægi jarðhitans til húshitunar. Þótt Jónas hafi verið afar umdeildur í sínu pólitíska starfi var hann heill og óumdeildur í sínu hugsjónastarfi fyrir hitaveituvæðingu landsmanna, bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni.

    Fáir höfðu í upphafi trú á að svo giftusamlega tækist með uppbyggingu Hitaveitu Reykjavíkur á kreppu- og stríðsárum og raun bar vitni um. Segja má að óslitið frá þeim tíma hafi landsmenn lagt mikið kapp á að nýta sér jarðhitann til húshitunar. Víðast hvar sem jarðhita var að finna efldist byggð, og á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar jukust rannsóknir á möguleikum nýrra hitaveitna mjög. Á áttunda áratugnum varð eins og kunnugt er mikil hækkun á olíuverði, sem íþyngdi mjög þeim landsmönnum er ekki höfðu hitaveitu eða rafhitun. Í kjölfarið var af hálfu ríkisins gert mikið átak til að auka hlut þessara orkugjafa og það átak hefur skilað þeim árangri að um 89% húsnæðis hér á landi er nú hitað með jarðvarma eða raforku og er það að sjálfsögðu heimsmet eins og margt það er við Íslendingar eigum í orkumálum. Þessu ber vissulega að þakka frábærum vísindamönnum okkar, sem hafa sérhæft sig í jarðhitaleit og á grundvelli þekkingar sinnar og reynslu hefur tekist að finna nýtanlegan jarðhita á stöðum, sem fyrir einum eða tveimur áratugum töldust til kaldra svæða. Mörg byggðarlög um allt land hafa notið góðs af þessu eljusama starfi, þróun í bortækni hefur einnig hjálpað okkur við að gera rannsóknir og leit markvissari og hagkvæmari en áður.

    Þessu til staðfestingar má nefna að fjöldi landsmanna er bjó við hitaveitur jókst úr 83 þúsund árið 1970 í 230 þúsund árið 2000 og hefur sá fjöldi enn vaxið. Afar varfærnislegar tölur benda til að sparnaður við jarðhitanýtingu við upphitun húsnæðis á árunum 1970-2000 samanborið við olíuhitun geti numið um 330-350 miljörðum króna, eða að jafnaði um 11 miljarða á ári á þessu tímabili sem nemur um þreföldum stofnkostnaði Kárahnjúkavirkjunar svo kunnugt talnadæmi sé tekið. Fjárhagslegur ávinningur þjóðarinnar með virkjun jarðhitans á síðustu áratugum hefur því verið stórkostlegur og í raun ótrúlegur.

    Þrátt fyrir að við Íslendingar hefðum verið afar seinir til að nýta okkur jarðhitann til hagbóta fyrir líkamlega velferð okkar gegndi öðru máli um nýtingu hans til iðnaðarframleiðslu. Eins og kunnugt er hleðst brennisteinn upp við gufuhverfi á háhitasvæðum. Fyrir víst er talið að hann hafi verið fluttur út héðan á tólftu öld og út allar miðaldir. Á fimmtándu öld fóru menn að nota hann til púðurgerðar á Norðurlöndum og þá er talið að ásókn í hann hafi aukist verulega. Í þeim styrjöldum er þá geisuðu í Evrópu varð hann afar verðmætur og varð þessi vinnsla mörgum til búdrýginda og tekna. Allt fram til síðari heimsstyrjaldarinnar var unninn brennisteinn hér á landi í mismiklum mæli, en formlega lauk vinnslu hans árið 1946, en þá var aflögð margra alda gömul vinnsla við Mývatn.
    Þá má minnast á saltgerð fyrr á öldum, enda var salt afar mikilvæg afurð fyrir Íslendinga til geymslu á matvælum og til fiskverkunar. Það er fyrst á átjándu öld að stofnað var til saltvinnslu hér á landi á kostnað Danakonungs á Reykhólum og Reykjanesi. Sú starfsemi lagðist þó af um aldamótin 1800, meðal annars vegna þess að menn kunnu ekki til verka við vinnslu á saltinu með suðu á sjó í hveravatni.

    Í dag má telja að bein iðnaðarnotkun jarðhitans sé afar takmörkuð, þ.e.a.s. Þörungavinnslan á Reykhólum og Kísilgúrverksmiðjan við Mývatn. Vitaskuld er það okkur kappsmál að auka iðnaðarnotkun jarðhitans til fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar. Hin afar ánægjulega þróun í notkun jarðhita til hagkvæmrar raforkuframleiðslu hér á landi síðustu áratugi kallar á betri nýtingu orkunnar. Það er óverjandi til langs tíma að nýta aðeins 10-15% hitaorkunnar til raforkuframleiðslu, en henda því er ekki nýtist. Eigi að síður er þessi takmarkaða nýting afar hagkvæm, sem bendir til þeirra möguleika er við eigum við frekari nýtingu. Í þessu efni eigum við mikla möguleika á sviði ferðamennskunnar eins og dæmin frá Svartsengi og Nesjavöllum sýna. Nýting jarðhitans í þágu ferðamennsku er augljóslega afar spennandi verkefni, nánast allir ferðamenn er koma hingað til lands fara í Bláa lónið, þar er enn frekar hægt að auka möguleikana og raunar víðar til að mynda slíka aðstöðu eins og við Mývatn og á Nesjavöllum.

    Það er vitaskuld unnt að fjalla lengi um þann ávinning sem jarðhitinn hefur haft í daglegri ímynd Íslendinga. Flestum er kunnugt um möguleika á notkun heita vatnsins í dag og margir nýta sér þá möguleika meðvitað eða ekki. Ímyndin er orðin slík að menn telja að vart sé hægt að hita húsnæði eða pott nema hitaveita sé lögð á staðinn þrátt fyrir það að víðast hvar séu hagkvæmari lausnir til hitunar á vatni. Sundlaugamenning er góðu heilli orðin samgróin samfélaginu og þá hefur ylræktin og gróðurhúsamenning verið snar þáttur í lífi okkar og landsmenn njóta hágæða gróðurhúsaafurða nánast allt árið á góðu verði.

    Ég minntist hér í upphafi á Jón Hjaltalín landlækni er var stofnandi að miklu baðlæknasetri utan við Kaupmannahöfn á árunum 1840-1850. Hann var mikill eldhugi og frumkvöðull að nýjum vatnslækningaraðferðum, sem gilda enn í dag. Baðlækningar munu vafalaust stóraukast hér á landi á næstu árum, lækningamáttur hveravatns hefur þegar sannað sig hér á landi eins og alkunna er með lækningamátt Bláa lónsins. Um þetta áhugaverða efni verður fjallað nánar í erindi hér síðar í dag.

    Ágætu ráðstefnugestir!

    Í erindi mínu hef ég rakið að ímynd jarðhitans í íslensku samfélagi hefur verið nokkuð breytileg. Í upphafi Íslandsbyggðar hefur greinilega verulega verið lagt upp úr þýðingu jarðhitans og hann nýttur eins og kostur var á. Á miðöldum og allt fram yfir miðja 19. öld ríkti tómlæti meðal þjóðarinnar um nýtingu hans. Eftir að hitaveituvæðing landsins hófst hefur þýðing jarðhitans aukist svo mjög að notkun hans er afgerandi þáttur í núverandi hagsæld og velferð þjóðarinnar.
    Við eigum enn mikil sóknarfæri á aukinni og betri nýtingu jarðhitans hér á landi, sem eru ekki enn orðin hluti af ímyndinni, en eru spennandi verkefni fyrir komandi kynslóðir. Ég vona að þær kynslóðir beri gæfu til að standa þar jafn vel að verki og okkur hefur auðnast á síðustu áratugum.

    Ég þakka áheyrnina.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta