Tillögur frá starfsgreinaráði málm-, véltækni- og framleiðslugreina um vinnustaðanám í málmiðngreinum
Til þeirra sem málið varðar.
Starfsgreinaráð málm-, véltækni- og framleiðslugreina hefur að beiðni ráðuneytisins unnið tillögur um tilhögun vinnustaðanáms í málmiðngreinum til menntamálaráðuneytisins. Um er að ræða lýsingu á fyrirkomulagi starfsþjálfunar sem tekur við af skólanámi í blikksmíði, rennismíði, stálsmíði og vélvirkjun. Samkvæmt námskrá í málmiðngreinum er gert ráð fyrir 15 mánaða starfsþjálfun til viðbótar við 6 anna bóklegt og verklegt nám í skóla. Í lýsingu vinnustaðanáms er gerð grein fyrir einstökum verkþáttum og þjálfunarferlum sem lagt er til að nemendur fari í gegnum á námstíma sínum á vinnustað. Samkvæmt tillögunum skulu fyrirtæki skipa sérstaka tilsjónarmenn með námi nemenda og er náminu fylgt eftir með færslu vinnubókar sem fylgir nemandanum allan námstímann.
Um er að ræða fyrstu tillögur þessa efnis og telur ráðuneytið eðlilegt að kynna þær fyrir hagsmunaaðilum, starfsgreinaráðum, skólum og almenningi. Því hefur skýrslu starfsgreinaráðs málm-, véltækni- og framleiðslugreina um vinnustaðanám verið komið fyrir á heimasíðu menntamálaráðuneytisins, menntamalaraduneyti.is. Hún verður þar til kynningar næstu 6 vikurnar eða til 8. apríl 2003. Á þeim tíma geta þeir sem þess óska sent inn athugasemdir um fyrirkomulag vinnustaðanáms í málmiðngreinum til menntamálaráðuneytisins, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík, eða á netfangið [email protected].
Þegar kynningu er lokið mun menntamálaráðuneytið fara yfir þær athugasemdir sem hugsanlega kunna að berast og taka að því loknu afstöðu til þess hvernig frekari vinnslu verður háttað. Minnt er á að ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í desember s.l. að láta fara fram sérstaka tilraun um vinnustaðanám og hljóta tillögur starfsgreinaráðs málm-, véltækni- og framleiðslugreina að koma til álita við framkvæmd þeirrar tilraunar.
(Febrúar 2003)