Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2003 Matvælaráðuneytið

Aukið verðmæti sjávarafurða.

28. febrúar 2003.

Fréttatilkynning
Verkefni um aukið verðmæti sjávarafurða hleypt af stokkunum.


Sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að setja á fót sjóð sem ætlað er að standa á bak við 5 ára átak til að auka virði íslenskra sjávarafurða. Ráðherra hefur jafnframt skipað eftirtalda aðila í stjórn sjóðsins: Friðrik Friðriksson (formaður), Ágústa Guðmundsdóttir, Baldur Guðnason, Friðrik Jón Arngrímsson, Helga Valfells, Hólmgeir Jónsson, Jóhanna María Einarsdóttir, Kristján Hjaltason og Vigfús Jóhannsson. Á þessu ári mun AVS-sjóðurinn hafa til ráðstöfunar um 80 m.kr. auk 500 tonna þorskkvóta til eldisrannsókna þannig að heildarverðmæti til ráðstöfunar verða um 140 - 150 m.kr. Gert er ráð fyrir að frá og með 2004 verði sjóðurinn fjármagnaður úr ríkissjóði og verði 300 m.kr á ári, en það ræðst af fjárlögum hverju sinni.

Sjóðstjórninni er ætlað að semja við utanaðkomandi aðila um tiltekna þætti rekstursins m.a. til að auka tengsl við samtök og hagsmunaaðila og forðast uppbyggingu nýrra stofnana eða rekstrareininga.

Ákvörðun þessi er tekin í framhaldi af skýrslu um möguleika á að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða og efla nýsköpun í greininni, s.k. AVS-skýrsla. Þar er lagt til að gert verði 5 ára átak til að auka virði sjávarafurða. Megintillagan er að stofnaður verði sérstakur sjóður sem styrki rannsókna- og þróunarstarf á öllum sviðum sjávarútvegsins. Bent er á að á tímabilinu 1990 til 2001 hafi óveruleg aukning orðið á raunverðmæti útfluttra sjávarafurða. Jafnframt kemur fram það álit nefndarinnar að gríðarlegir möguleikar séu til að auka verðmæti þess afla sem úr sjó er dreginn. Niðurstaða hennar er að með auknu rannsókna- og þróunarstarfi sé raunhæft að setja það markmið að útflutningsverðmæti sjávarafurða verði 240 milljarðar árið 2012, samanborið við 130 milljarða 2001. Í skýrslunni er talið að slík aukning verði fyrst og fremst borin uppi af fiskeldi, líftækni, vinnslu aukaafurða auk bættrar tækni við fiskvinnslu.

Undanfarin misseri hefur mikið verið fjallað um þorskeldi, og m.a. af sérstökum samstarfshópi á vegum sjávarútvegsráðuneytisins, auðlindadeildar Háskólans á Akureyri, Hafrannsóknastofnunarinnar og sjávarútvegsfyrirtækja. Markmið starfsins var að meta samkeppnishæfni þorskeldis á Íslandi, móta stefnu í rannsókna- og þróunarvinnu og afla og miðla upplýsingum um þorskeldi. Nýlega tók hópurinn saman ítarlega skýrslu um stefnumótun í rannsókna- og þróunarvinnu fyrir þorskeldi á Íslandi, þar sem tekið var mið af hugmyndum í AVS-skýrslunni um að settur skuli á fót sérstakur fiskeldishópur. Sjávarútvegsráðherra hefur skipað fiskeldishóp sem mun starfa innan ramma AVS-sjóðsins.

Nefndin sem vann AVS-skýrsluna gerði einnig tillögur um nokkur verkefni sem unnt væri að hefja vinnu við samhliða stofnun AVS-sjóðsins, og hefur sjávarútvegsráðherra ákveðið að þrjú verkefni hljóti sérstakan styrk. AVS-sjóðnum verður falið að annast greiðslur og sjá um eftirfylgni. Verkefnin eru bætt meðferð afla sem er í höndum Rf, ný vinnslulína í flakavinnslu í samvinnu við Skagann hf. og fiskprótein sem fæðubótarefni í samvinnu við Prímex og ÚA.


Sjávarútvegsráðuneytið
28. febrúar 2003

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum