Fréttapistill vikunnar 1. - 7. mars 2003
Fréttapistill vikunnar
1. - 7. mars 2003
Átak í lyfjamálum heilbrigðisstofnana
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur skipað stýrihóp til að vinna að átaki í lyfjamálum heilbrigðisstofnana. Vinna á að sparnaði og hagræðingu í innkaupum lyfja, lyfjavali og réttri notkun lyfja. Stýrihópnum er ætlað að stuðla að og kynna stefnumörkun heilbrigðisstofnana í lyfjamálum. Einnig að samræma val lyfja á lyfjalista sem byggjast á grunnlyfjalista Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, klínískum leiðbeiningum landlæknis og öðrum viðurkenndum leiðbeiningum. Sjá um útgáfu og kynningu sameiginlegs lyfjalista. Stuðla að sameiginlegum innkaupum og útboðum á vegum Ríkiskaupa á þeim lyfjum sem valin eru á sameiginlegan lyfjalista. Semja reglur um lyfjakynna og aðra sölumenn, um takmarkaðan aðgang þeirra að starfsfólki heilbrigðisstofnana og heimildir þeirra í starfi og semja leiðbeiningar um það hvernig ný og dýr lyfjameðferð er tekin í notkun á heilbrigðisstofnunum. Stýrihópurinn skal skila áfangaskýrslu til ráðherra fyrir 1. október n.k. Formaður hópsins er Einar Magnússon, deildarstjóri á skrifstofu lyfjamála í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.
Nefndin...
Flutningur sjúkraskrárupplýsinga í gagnagrunn á heilbrigðissviði - stjórnvaldsákvörðun landlæknis staðfest fyrir dómi
Ekki verður lagt bann við flutningi upplýsinga úr sjúkraskrám um látinn mann í gagnagrunn á heilbrigðissviði samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem fjallaði um kröfu þess efnis sem kona gerði fyrir hönd dóttur sinnar. Konan hafði farið þess á leit við landlæknisembættið fyrir hönd dóttur sinnar að upplýsingar úr sjúkraskrám um látinn föður hennar yrðu ekki fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði samkvæmt lögum nr. 139/1998. Landlæknisembættið hafnaði þeirri beiðni. Fyrir héraðsdómi krafðist stefndandi þess að sú stjórnvaldsákvörðun landlæknisembættisins yrði felld úr gildi. Niðurstaða héraðsdóms var sú að dulkóðun heilsufarsupplýsinga, aðgangshindranir, öryggiskröfur og eftirlit opinberra aðila með rekstri gagnagrunns á heilbrigðissviði og þagnarskylda þeirra sem koma að gerð og starfrækstu hans gerði það að verkum að upplýsingarnar sem fyrirhugað var að flytja í gagnagrunninn væru ópersónugreinanlegar í lagalegum skilningi eftir að hafa verið fluttar í hann. Héraðsdómur sýknaði ríkið af þeirri kröfu að stjórnvaldsákvörðun landlæknisembættisins yrði felld úr gildi.
Dómurinn... (pdf-skjal)
Ný reglugerð um veitingu sérfræðileyfa í hjúkrun
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur staðfest nýja reglugerð nr. 124/2003 um veitingu sérfræðileyfa í hjúkrun. Reglugerðin hefur þegar tekið gildi og eldri reglugerð nr. 426/1993 er úr gildi fallin.
Heildartekjur heilsugæslustöðva af komugjöldum
Heildartekjur heilsugæslustöðva vegna komugjalda árið 2002 voru 241 milljón króna. Árið 2000 voru heildartekjurnar rúmar 292 m.kr. og rúmar 298 m.kr. árið 2001. Ástæða fyrir lægri heildartekjum árið 2002 var lækkun komugjalda úr 850 krónum í 400 krónum snemma á árinu 2002. Þetta kom fram í svari heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi í vikunni. Meðal annars var spurt um stefnu ráðherra varðandi komugjöld og svaraði ráðherra því til að stefna ráðuneytisins sé sú að heilsugæslan eigi að annast grunnþjónustuna og þangað leiti fólk fyrst. Ráðherra sagði ekki standa til að hverfa frá þeirri stefnu að heilsugæslan væri grunnþjónusta heilbrigðisþjónustu, þjónustan væri almenn, aðgangur greiður og óháður tekjum, eignum eða félagslegri stöðu manna. "það hefur verið yfirlýst stefna mín að halda komugjöldum í heilsugæslunni í lágmarki til að tryggja slíkt jafnræði og treysta heilsugæsluna í sessi."
Svar ráðherra...
Tillögur LSH um lausnir á bráðum vanda barna og unglinga sem þurfa þjónustu barna- og unglingageðdeildar sjúkrahússin
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra bárust í vikunni tillögur Landspítala - háskólasjúkrahúss um lausn á bráðum vanda barna og unglinga sem þurfa á þjónustu barna- og unglingageðdeildar sjúkrahússins (BUGL) að halda en ráðherra fól forstjóra sjúkrahússins að setja fram slíkar tillögur. Forstjóri sjúkrahússins skipaði nefnd um málið og miðuðu fyrstu tillögur hennar að lausn á bráðum vanda einstaklinga sem þurfa tafarlausa þjónustu BUGL. Samkvæmt þeim er í fyrsta lagi gert ráð fyrir fjölgun rúma á unglingageðdeild úr 9 í 12. Í öðru lagi tillaga um að göngudeild sem nú er rekin á BUGL verði flutt annað og unglingageðdeildin stækkuð úr 9 rúmum í 17. Í þriðja lagi er lagt til að komið verði á fót sérstökum starfshópi sem einbeiti sér að bráðatilvikum og hagi auk þess að meginviðfangsefni að vinna á bráðabiðlistum unglingageðdeildar, heimsækja unglinga í vanda og veita sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu utan sjúkrahússins. Ráðherra svaraði í vikunni fyrirspurn á Alþingi um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga og ræddi þar meðal annars um málefni BUGL og rakti þróunina í rekstrinum þar síðast liðin fimm ár. > Svar ráðherra...
Nánar...
Nýr framkvæmdastjóri Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað Guðrúnu Gísladóttur viðskiptafræðing í stöðu framkvæmdastjóra Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar til næstu fimm ára. Átján sóttu um stöðuna. Nefnd sem skipuð var til að meta hæfni umsækjenda um stöðuna skilaði áliti sínu fyrir stuttu. Niðurstaða hennar var að tólf umsækjendur væru hæfir til að gegna starfinu og sex þeirra vel hæfir. Guðrún tekur við starfinu fljótlega.
7. mars 2003