Dóms- og kirkjumálaráðherra í Haag.
Fréttatilkynning
Nr. 5/ 2003
Sólveig Pétursdóttir dóms- og kirkjumálaráðherra heimsækir dagana 10.-11. mars 2003 þrjár stofnanir í Haag: Stofnun alþjóðlegs einkamálaréttar (Haag Conference of Private International Law), Stríðsglæpadómstólinn fyrir ríki fyrrv. Júgóslavíu og Alþjóðlega stríðsglæpadómstólinn.
Í dag, 10. mars, mun Sólveig Pétursdóttir heimsækja einkamálaréttarstofnunina. Stofnunin hefur um langa hríð unnið að gerð alþjóðasamninga um einkamálarétt. Má þar t.d. nefna samninga á sviði sifjamála, svo sem um úrlausn deilumála um forræði barna, um ættleiðingar yfir landamæri o.fl., svo og ýmsa samninga um úrlausn lögfræðilegra vandamála í alþjóða viðskiptum.
Aðildarríki stofnunarinnar eru 62. Ísland hefur sótt um aðild og er búist við að hægt sé að ganga frá henni innan skamms.
Sólveig Pétursdóttir mun enn fremur heimsækja Stríðsglæpadómstólinn fyrir ríki fyrrv. Júgóslavíu, sem settur var á fót af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að ákæra og dæma í málum er varða stríðsglæpi í nýafstöðnum átökum á Balkanskaga. Ætlunin er m.a. að ræða óskir dómstólsins um samvinnu við íslensk stjórnvöld.
Á morgun 11. mars heimsækir Sólveig Pétursdóttir Alþjóðlega stríðsglæpadómstólinn til að vera viðstödd athöfn þar sem fram fer eiðtaka af þeim 18 dómurum dómstólsins, sem kosnir voru í byrjun febrúar. Hinn 31. janúar sl. höfðu 139 ríki undirritað Rómarsamþykkt um Alþjóðlega stríðsglæpadómstólinn frá 1998, og þar af höfðu 87 ríki fullgilt hann. Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 25. maí 2000.
Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
10. mars 2003.
10. mars 2003.