Hoppa yfir valmynd
10. mars 2003 Forsætisráðuneytið

Undanþága frá sænskum nafnalögum


Fréttatilkynning:

Íslendingar fá undanþágu frá sænskum nafnalögum


Mikill hljómgrunnur er nú fyrir því meðal ráðamanna á Norðurlöndum að ryðja úr vegi þeim landamærahindrunum sem enn er að finna milli ríkjanna þrátt fyrir alla þá mörgu norrænu samstarfssamninga sem í gildi eru. Leiðir til þess að leysa ýmis vandamál sem af þessu skapast voru meðal þess sem samstarfsráðherra Svíþjóðar, Berit Andnor og Siv Friðleifsdóttir samstarfsráðherra ræddu á fundi sínum í Reykjavík í dag. Ráðherrarnir ræddu einnig um ýmis málefni sem varða tvíhliða samskipti Íslands og Svíþjóðar. Hvalveiðimálið bar á góma, en einnig var nafnamálið svokallaða sérstaklega rætt á fundinum. Sænsk nafnalög stríða gegn íslenskri nafnahefð og hefur þetta m.a. leitt til þess að erfiðleikar hafa komið upp við að fá rétta skráningu í Svíþjóð fyrir þau börn sem hafa bæði sænskan og íslenskan ríkisborgararétt. Á fundinum tilkynnti Berit Andnor að sænska ríkisstjórnin hefði ákveðið að gefa út sérstaka reglugerð sem mun veita Íslendingum undanþágu frá sænsku nafnalögunum og telja Svíar að þar með sé fundin frambúðarlausn á vandanum.

Á þessu ári fara Svíar með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni sem þýðir að þeir munu stýra þar öllu starfi og verða í aðstöðu til þess að setja mark sitt á það. Á formennskuárinu leggja Svíar m.a. mikið upp úr því að sýnilegur árangur náist í baráttunni gegn landamærahindrunum og hafa þeir falið Poul Schlüter fyrrverandi forsætisráðherra Dana að fylgja því máli eftir. Poul Schlüter hefur þegar snúið sér til margra norrænna fagráðherranefnda með tillögur um beinar aðgerðir, meðal annars hefur hann lagt til að norrænar kennitölur verði látnar gilda hvar sem er á Norðurlöndum.

Berit Andnor og Siv Friðleifsdóttir heimsóttu í dag höfuðstöðvar þjónustusímans ,,Halló Norðurlönd" en hann er til húsa hjá Norræna félaginu. Fyrirspurnir til þjónustusímans aukast stöðugt, en til marks um það má nefna að allt síðasta ár voru þær 250 en á fyrstu tveim mánuðum þessa árs eru fyrirspurnir þegar orðnar 109. Esther Sigurðardóttir hefur verið framkvæmdastjóri þjónustusímans frá stofnun hans fyrir 2 árum. Að hennar sögn koma fyrirspurnir einkum frá Íslendingum sem eru annaðhvort að flytja til annars lands innan Norðurlanda eða þeim sem eru þegar búsettir þar. Flestar fyrirspurnir varða Danmörku og Noreg, og Svíþjóð kemur þar fast á eftir. Mest er spurt um rétt til fæðingarorlofs, barnabóta, eftirlauna og annarra félagslegra réttinda. Einnig er mikið beðið um aðstoð við að finna atvinnu og húsnæði og einnig er spurt um reglur varðandi flutning á bílum, rétt til námslána og skólamál.

Esther segir nokkuð um það að fólk leiti sér upplýsinga of seint og þegar í óefni er komið. Helst hefur verið um það að ræða að próf frá íslenskum skólum eru ekki viðurkennd annars staðar á Norðurlöndum, en einnig hefur flutningur haft það í för með sér að fólk missir rétt sinn til ýmissa bóta, svo sem atvinnuleysisbóta, fæðingarorlofs eða lífeyris.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta