Hoppa yfir valmynd
12. mars 2003 Matvælaráðuneytið

Rafrænt samfélag.

    Valgerður Sverrisdóttir,
    iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

    Ávarp á hádegisverðarfundi um rafrænt samfélag,
    Grand Hótel Reykjavík, 12. mars 2003.


    Ágætu fundargestir.

    Er verkefnið Ísland sem tilraunasamfélag fyrir rafræn viðskipti of gott til að vera satt? Felur það í sér of djarfa hugsun? Er það óframkvæmanlegt?

    Við í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytum teljum svo ekki vera. Við teljum þvert á móti að hugmyndin sé allt of góð til að fá ekki brautargengi. Einnig teljum við að hún falli vel að fyrri vinnu ráðuneytanna í tengslum við rafræn viðskipti og sé í réttu samhengi við hana. Við ákváðum því að taka frumkvæði í málinu og veita verkefninu umtalsverðan stuðning.
    En hvað felst í verkefninu tilraunasamfélag fyrir rafræn viðskipti?

    Eins og kannski margir sem hér eru vita, gengur hugmyndin um tilraunasamfélag fyrir rafræn viðskipti út á að fimm lönd gerist tilraunasamfélög fyrir rafræn viðskipti í Evrópu. Tilgangurinn er að til verði efnahagssamfélög sem geti þjónað sem rafræn viðskiptalíkön fyrir önnur lönd. Þar með náist fyrr þau markmið að fyrirtæki nýti sér rafræna tækni til að auka viðskipti innan landa og milli landa. Forystuland þarf að uppfylla tiltekin skilyrði sem talin eru forsenda farsællar þróunar slíkra viðskipta. Færð hafa verið fyrir því rök að Ísland uppfylli öll þau skilyrði að teljast forystuland.

    Til þess að draga þetta saman erum við að tala um að rafvæða Ísland! - Innleiða rafræna viðskiptahætti með skipulegum og samræmdum hætti, þar sem skilgreint er í hvaða verkefni þarf að fara og í hvaða röð, hvaða nauðsynlegu þætti þarf að styrkja til að rafvæðingin gangi upp, þar sem menn læra hver af öðrum og þar sem á endanum næst vonandi árangur sem til eftirbreytni verður.

    Og hvenær á að ráðast í þetta verkefni?

    Nú er unnið hörðum höndum að því að vinna að fjármögnun verkefnisins. Í því sambandi er meðal annars horft til mögulegrar umsóknar í 6. rammaáætlun Evrópusambandsins. Hinsvegar er vert að vekja athygli á því hér að verkefnið stendur hvorki né fellur með umsókninni í 6. rammaáætlunina eða afdrifum hennar. Mögulegt er að sækja um styrki í aðra sjóði Evrópusambandsins og er gert ráð fyrir að unnið verði að fjármögnun verkefnisins á þessu ári og hafist handa við innleiðingu á næsta ári.

    En hvers vegna ákváðu iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti að styrkja verkefnið?

    Það voru margar ástæður fyrir því að ráðuneytin ákváðu að taka frumkvæði í þessu máli og styrkja það með myndarbrag. Í því sambandi má nefna að við töldum verkefnið afar spennandi og falla vel að þeirri þróun sem átt hefur sér stað í rafrænum viðskiptum á Íslandi.

    Í árdaga rafrænna viðskiptahátta á Íslandi lögðu iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti áherslu á að kynna þá möguleika sem í þeim fælist fyrir markaðnum. Síðan var farið út í þá vinnu að athuga hvort breyta þyrfti lögum og reglum til að ekki væru lagalegar hindranir fyrir rafrænum viðskiptaháttum hér á landi. Samin var skýrsla um efnið á vegum ráðuneytisins á árinu 1999. Niðurstaða hennar var að íslensk lög væru að meginstefnu til fullnægjandi, en að huga þyrfti að þróuninni í Evrópu og í heiminum öllum við setningu frekari reglna á sviði rafrænna viðskipta. Skýrsla þessi var notuð til frekari stefnumótunar. Á síðustu tveimur árum hafa verið samþykkt nokkur frumvörp á þessu sviði sem viðskiptaráðuneytið hefur unnið að. Hér ber helst að nefna lögin um rafrænar undirskriftir, sem leggja grunninn að notkun rafrænna undirskrifta í viðskiptum, og lögin um rafræn viðskipti, sem skýra og treysta réttarstöðu þeirra sem stunda rafræn viðskipti. Er nú svo komið að ekki verður séð að lög hamli rafrænum viðskiptum, né að lög skorti til þess að slíkir viðskiptahættir fái þrifist. Því telur ráðuneytið það spennandi verkefni að nýta það lagaumhverfi sem hér hefur verið mótað við innleiðingu rafræns viðskiptasamfélags á Íslandi. Við teljum því að nú sé rétti tíminn til að takast á hendur svo stórt verkefni.

    Einnig er vert að nefna að unnið hefur verið að ýmsum verkefnum við innleiðingu rafrænna viðskiptahátta, sem ráðuneytið hefur fylgst með. Mörg þessara verkefna eru mjög spennandi. Það verður hins vegar ekki á móti mælt að skynsamlegt væri að hafa meiri skipulagningu og samráð við vinnslu verkefnanna, þannig að menn myndu læra af mistökunum og þekkingin dreifðist á meðal manna. Þannig virðist verkefni um tilraunasamfélag fyrir rafræn viðskipti vera til þess fallið að bæta úr þessu; það tengir saman ólík verkefni, skilgreinir hvaða grundvallarþáttum hvert verkefni tekur á og tryggir að þekking og reynsla flæði á milli manna.

    Loks má nefna að við teljum verkefnið um tilraunasamfélag fyrir rafræn viðskipti falla mjög að þeirri byggðaáætlun sem gildir fyrir árin 2002-2005. Í henni er einmitt mikil áhersla lögð á upplýsingatækni og rafræn samskipti, þar sem þau eru til þess fallinn að minnka mjög fjarlægðir í milli manna og stuðla að jöfnum tækifærum til samskipta og viðskipta óháð staðsetningu þeirra.

    Góðir fundargestir.

    Um leið og ég set þennan hádegisverðarfund langar mig til að hvetja ykkur til þess að gefa verkefni um rafrænt tilraunasamfélag gaum. Það er sannfæring mín að í því séu fólgin gríðarleg tækifæri fyrir íslenskt viðskiptalíf. Það er stundum sagt að við Íslendingar hugsum stórt og getum lyft Grettistaki á stuttum tíma. Ég tel að þetta verkefni endurspegli einmitt þann hugsunarhátt. Það felur í sér óskaplega spennandi tækifæri. Tækifæri sem við megum ekki missa af.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta