Undirritun samninga um byggingu álvers Fjarðaáls sf. í Reyðarfirði
Undirritun samninga um byggingu álvers Fjarðaáls sf. í Reyðarfirði
Á morgun, laugardaginn 15. mars, verða undirritaðir samningar um byggingu 322.000 tonna álvers Alcoa í Reyðarfirði. Athöfnin fer fram kl. 14:00 í íþróttahúsi Reyðarfjarðar. Undirritun samninganna markar upphaf framkvæmda sem munu hafa mjög jákvæð áhrif á efnahagslíf þjóðarinnar. Undir samningana rita: Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra, Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Alain J.P. Belda, stjórnarformaður og forstjóri Alcoa, Michael Baltzell, formaður samninganefndar Alcoa, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar og Guðmundur Bjarnason, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Alls skapast 750 ný störf á Austurlandi með tilkomu álversins, þar af um 450 í álverinu sjálfu og um 300 í tengdum iðnaði, þjónustu og verslun. Þessi nýju störf munu renna styrkum stoðum undir atvinnulíf á Austurlandi en á undanförnum árum hefur störfum fækkað þar samhliða breytingum í sjávarútvegi og landbúnaði. Bygging og starfsemi álversins mun snúa við neikvæðri byggðaþróun á Austurlandi.
Áætlaður byggingakostnaður álversins er um 84 milljarðar króna og byggingakostnaður Kárahnjúkavirkjunar um 95 milljarðar króna. Alls munu um 6300 ársverk skapast á meðan á framkvæmdum stendur, þar af 2300 við byggingu álversins og um 4000 við byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun eru þegar hafnar og framkvæmdir vegna byggingar álversins munu hefjast haustið 2004. Álverið mun hefja framleiðslu fyrra hluta árs 2007.
14. mars, 2003
Iðnaðarráðuneytið - Fjármálaráðuneytið - Alcoa - Landsvirkjun - Fjarðabyggð