Skýrsla um samgöngur til Vestmannaeyja
Með bréfi dags. 3. maí 2002 skipaði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra starfshóp til þess að fjalla um samgöngur til Vestmannaeyja með þarfir íbúa og atvinnulífs í huga. Í hópinn voru skipuð Kristján Vigfússon, Siglingastofnun sem formaður, Guðjón Hjörleifsson, þáverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, Arnar Sigurmundsson, framkvæmdastjóri í Vestmannaeyjum, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins, Sigmar Georgsson, formaður Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja, Kristín Sigurbjörnsdóttir, Vegagerðinni, Haukur Hauksson, Flugmálastjórn og Gísli Viggósson, Siglingastofnun. Með hópnum störfuðu einnig Kristján Sveinsson frá Siglingastofnun og Jón Baldvin Pálsson flugvallarstjóri í Reykjavík.
Í skipunarbréfi ráðherra er starfshópnum falið að gera úttekt á þeim kostum sem hugsanlegir eru í samgöngum við Vestmannaeyjar í lofti og á legi, þar á meðal uppbyggingu ferjuaðstöðu á Bakkafjöru, rekstur svifnökkva og annarra nýrra kosta sem til greina gætu komið.
Samgönguráðherra kom á fyrsta fund starfshópsins, sem haldinn var þann 10. maí 2002 í húsakynnum Siglingastofnunar Íslands að Vesturvör 2 í Kópavogi. Þar áréttaði hann að starfshópnum bæri að kanna hvaða úrræði væru nærtæk til að bæta og efla samgöngur við Vestmannaeyjar við núverandi aðstæður og einnig hvert stefna bæri þegar til lengri tíma er litið. Í þeim anda hefur starfshópurinn rækt hlutverk sitt og fer hér á eftir greinargerð fyrir störfum hans og niðurstöðum.
Áfangaskýrslu um samgöngur til Vestmannaeyja var skilað til samgönguráðherra 12. ágúst 2002. Þar voru kynntar tillögur starfshópsins sem miðuðust við aðgerðir sem hægt væri að grípa til og hrinda í framkvæmd með skömmum fyrirvara. Í kjölfar áfangaskýrslunnar tók samgönguráðherra þá ákvörðun að fjölga ferðum Herjólfs í samræmi við tillögur starfshópsins. Gert er ráð fyrir að farnar verði um 570 ferðir milli lands og Eyja á árinu 2003 og er þá aukning ferða frá árinu 2000 orðin 30%. Fjölgun ferða, hærra þjónustustigi og breyttri áætlun Herjólfs hefur verið vel tekið af heimamönnum og öllum þeim sem ferjuna nota.
Helstu niðurstöður og tillögur starfshópsins eru eftirfarandi:
Á síðustu misserum hafa komið fram meðal Vestmannaeyinga kröfur um bættar samgöngur við Eyjar. Þótt Íslandsflug hafi eytt þeirri óvissu sem ríkti um flugsamgöngur milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur og Vestmannaeyjaferjan Herjólfur anni vel flutningum á varningi og farþegum milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, nema á helstu álagstímum, og samgöngur milli lands og Eyja geti þannig ekki talist vera í neinum ógöngum, þá eru nú uppi kröfur um hærra þjónustustig og styttri ferðatíma en nú býðst.
Þessar kröfur eru afar eðlilegar og þær eru í samræmi við kröfur annarra íbúa þessa lands um greiðar og góðar samgöngur. Hvað flugleiðina milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur snertir þá heldur Íslandsflug þar uppi reglulegu áætlunarflugi. Heimamönnum þykja fargjöld há og sætaframboð hrekkur ekki til á álagstímum. Starfshópurinn kannaði hvort unnt væri að beita opinberum ráðstöfunum til að lækka fargjöldin og komst að raun um að útboð á flugleiðinni yrði talið brot á samkeppnisreglum Evrópska efnahagssvæðisins meðan flugleiðinni er sinnt á markaðsforsendum. Ekki hefur heldur verið sýnt fram á að fargjöld Íslandsflugs séu óeðlilega há miðað við rekstrarforsendur á flugleiðinni. Þrátt fyrir það telur starfshópurinn rétt að kannað verði, þegar núverandi samningar um ríkisstyrkt sjúkra- og áætlunarflug á landinu renna út, hvort unnt sé að styðja við rekstur áætlunarflugs til Eyja í ljósi þess að Vestmannaeyjar eru ekki í þjóðvegasambandi eins og nær öll önnur byggðarlög hér á landi.
Flugfélag Vestmannaeyja flýgur áætlunarflug á Bakkaflugvöll í Landeyjum og stundar einnig umtalsvert flug þangað utan áætlunarferða. Samgöngur milli Vestmannaeyja og Bakkaflugvallar eru því mikilvægar fyrir Vestmannaeyinga og umferð um Bakkaflugvöll hefur farið vaxandi undanfarin ár. Aðstaða á vellinum er ófullnægjandi og starfshópurinn leggur til að bætt verði úr henni með því að koma upp nýrri flugstöð með viðhlítandi aðstöðu fyrir farþega og umsjónarmann flugvallarins. Starfshópurinn telur þó að meta beri þörf fyrir uppbyggingu á Bakkaflugvelli með hliðsjón af því hvaða niðurstaða fæst af athugunum á því hvort fýsilegt sé að byggja ferjulægi á Bakkafjöru.
Þótt könnun á hugsanlegri vegtengingu milli Vestmannaeyja og lands væri ekki meðal þeirra verkefna sem starfshópnum var ætlað að fást við hvetur hann eindregið til þess að áformaðar rannsóknir íslenskra og bandarískra jarðvísindamanna á svæðinu milli lands og Eyja, sem fyrirhugaðar eru á þessu ári og því næsta, verði styrktar af stjórnvöldum til þess að standa undir nauðsynlegum kostnaði, allt að 6,0 millj. kr., vegna leigu á hafrannsóknarskipi í eigu íslenska ríkisins. Þessar rannsóknir myndu nýtast hvort sem væri vegna hugsanlegrar vegtengingar milli lands og Eyja eða byggingu ferjulægis á Bakkafjöru.
Það er einkum fundið að Herjólfi að skipið sé hægfara og ferðatími því ærið langur, en öruggt er það og sjaldgæft er að ferðir þess falli niður. Kröfunni um styttri siglingatíma Vestmannaeyjaferju væri hægt að mæta með þrennum hætti að mati starfshópsins.
Í fyrsta lagi mætti gera breytingar á Herjólfi, þ.e. gera hann hraðskreiðari með því að lengja hann og auka við vélarafl. Athugun á þessum möguleika leiddi til þeirrar niðurstöðu að mjög dýrt yrði að auka ganghraða Herjólfs. Fyrir 20 hnúta ganghraða á klukkustund í stað þeirra 15?16 sem skipið hefur nú, og myndi leiða af sér 25 mín styttingu á ferðatíma núverandi Herjólfs, yrði að greiða u.þ.b. 1.000 milljónir kr. í stofnkostnað og 40 milljónir kr. á ári í rekstrarstyrk umfram það sem nú er greitt. Á sama hátt myndi 22 hnúta ganghraði, er skilaði Herjólfi á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar á um 2 klukkustundum leiða til 1.300 milljóna kr. stofnkostnaðar og 80 milljóna kr. í rekstrarstyrk umfram það sem nú er greitt í styrk til Herjólfs.
Í öðru lagi mætti láta smíða stærra og hraðskreiðara skip eða kaupa slíkt skip. Verði ferjusiglingar milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar grunnþáttur í samgöngum milli lands og Eyja líkt og verið hefur undanfarinn aldarfjórðung mun smíði skips af því tagi vafalítið komast á dagskrá innan þriggja ára og leggur starfshópurinn til að nýtt skip verði farið að sigla fyrir árslok 2008 ef þessi kostur verður ofan á. Ætla má að kostnaður við smíði ferju er væri 90 til 100 m að lengd, með 20?22 hnúta ganghraða, gæti numið á bilinu 2,5 til 4 milljarðar króna eftir því hvernig skipið yrði búið og hvar það yrði smíðað. Er þá miðað við að smíðað yrði hefðbundið skip.
Á síðustu misserum og mánuðum hefur einmitt borið nokkuð á umræðum um það hvort háhraðaferjur eða jafnvel loftpúðaskip (svifnökkvar) gætu komið að gagni á siglingaleiðinni milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar eða milli Vestmannaeyja og Landeyjasands. Starfshópurinn gaf því sérstakan gaum að þessum farkostum og leitaði álits sérfræðinga á þeim. Þessar eftirgrennslanir leiddu í ljós að svo miklar takmarkanir yrðu á notkun háhraðaferja á ofangreindum siglingaleiðum að tómt mál væri að tala um að nota þær þar. Frátafir yrðu mjög miklar þar eð flokkunarfélög setja ströng mörk um ölduhæð fyrir skip af þessu tagi. Yrði því að fella niður fjölda ferða stóran hluta ársins. Það gerir þessi skip enn óheppilegri til Vestmannaeyjasiglinga að þau eru ekki gerð til að flytja flutningabíla, en það þarf Vestmannaeyjaferja nauðsynlega að geta. Rekstrarkostnaður háhraðaskipa er og til mikilla muna hærri en hefðbundinna skipa. Ekki er talið útilokað að slík framþróun verði í byggingu háhraðaskipa á næstu árum að til greina gæti komið að slíkt skip yrði fengið í stað Herjólfs ef hann yrði endurnýjaður eftir áratug eða svo.
Hvað kaup og rekstur loftpúðaskips snertir leiddu eftirgrennslanir í ljós að stofnkostnaður við far af þeirri stærð sem getur flutt bifreiðar og fólk myndi nema milljörðum króna, ef það þá fengist. Reksturinn yrði einnig geysi kostnaðarsamur vegna þess hve orkufrek för af þessu tagi eru og slit á þeim mikið. Smærri loftpúðaskip, sem einungis flytja fólk, yrðu vart valkostur heldur þótt kaupverð þeirra og rekstrarkostnaður sé miklu lægri en stærri fara, því frátafir yrðu miklar og notagildi takmarkað. Um helmingur allra ferða á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar og um 40% ferða milli Vestmannaeyja og Landeyjasands myndu falla niður.
Þriðji og síðasti valkosturinn til að stytta siglingatíma ferju milli Vestmannaeyja og lands, sem hér er tekinn til umfjöllunar, felst í því að byggt verði ferjulægi á Bakkafjöru og ferja höfð í förum á milli Vestmanneyjahafnar og ferjulægisins. Nú þegar hafa verið gerðar frumathuganir á þessum valkosti sem benda til þess að hann geti reynst bæði raunhæfur og fýsilegur með tilliti til hentugleika og kostnaðar. Verði af þessu má hugsa sér að ferja gangi frá Vestmannaeyjum á tveggja klukkustunda fresti, en siglingin milli lands og Eyja kemur til með að taka um hálfa klukkustund. Starfshópurinn leggur áherslu á að stjórnvöld stuðli að því að unnt verði að gera þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru á næstu tveimur til þremur árum til að hægt verði að skera úr um það til fullnustu hvort og með hvaða hætti fýsilegt sé að byggja þetta mannvirki. Geti orðið af ferjulægi á Bakkafjöru skal að því stefnt að ferja verði farin að sigla milli Vestmannaeyja og Bakkafjöru á árunum 2007 til 2008. Leggur starfshópurinn til að ekki verði ráðist í stórfelldar fjárfestingar í samgöngumannvirkjum eða samgöngutækjum fyrir Vestmannaeyjar fyrr en niðurstaða liggur fyrir um möguleikann á að reisa ferjuaðstöðu á Bakkafjöru því sú niðurstaða mun verða afgerandi fyrir það hvernig samgöngumálum Eyjanna verður háttað í framtíðinni.
Skýrsla um samgöngur til Vestmannaeyja (pdf - 3,95 Mb)
Viðaukar við skýrslu (pdf - 2,5 Mb)