Hoppa yfir valmynd
20. mars 2003 Matvælaráðuneytið

Nýtt fyrirkomulag sorphirðu á Eyjafjarðarsvæðinu.

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.


Ávarp
á fundi um nýtt fyrirkomulag sorphirðu á Eyjafjarðarsvæðinu
19. mars 2003




Fundarstjóri ágætu fundarmenn.

Ég geri ráð fyrir að við þekkjum öll orðatiltækið: "Lengi tekur sjórinn við", - sem gefur það til kynna að óravíddir sjávarins séu svo miklar - að þótt rusli sé hent í sjó þá hafi það lítil eða engin áhrif á lífríki sjávarins - svona í heildina séð. Ég legg þó áherslu á að máltækið segir: "Lengi tekur sjórinn við" sem gefur til kynna að þetta eigi sér einhver takmörk.

Við höfum einnig í gegnum tíðina litið svo á að fjarlægð okkar frá öðrum löndum sé svo mikil að við liggjum hér í góðu vari frá meginstraumi mengunarinnar. Þetta hefur líka reynst rangt, og ýmis konar óyndi hefur læðst að okkur úr ólíklegustu áttum. Staðreyndin er t.d. sú að í dýraríki norðursins, í órafjarlægð frá upprunastöðum mengunarinnar, hafa hlaðist upp margvísleg efni sem reynst hafa lífríkinu hættuleg, og geta fyrr en varir orðið því að fjörtjóni.
Þessar tvær staðreyndir komu upp í huga mér þegar mér var boðið að ávarpa þessa samkomu. Ég geri mér grein fyrir að umfjöllunarefnið hér snýst um förgun úrgangs á landi. Í rauninni er þetta eitt og það sama - með þeirri undantekningu þó - að förgun úrgangs á landi stendur okkur mun nær og hefur áþreifanlegri og fljótvirkari áhrif á næsta umhverfi okkar en sjórinn. Í báðum tilvikum þurfum við alvarlega að hugsa okkar gang. Mergur málsins er nefnilega sá að meðferð úrgangs, og einkum mengandi efna, er að verða alvarlegt samfélagslegt vandamál sem enginn getur vikið sér undan.

Lausn þess er ekki fólgin í því að stjórnvöld lögbindi einhliða íþyngjandi úrræði fyrir landsmenn - heldur í því að til verði samstaða um aðgerðir sem eru þjóðfélagslega hagkvæmar, bæði fyrir hinn almenna borgara og atvinnulífið.

Reynsla mín er sú að við séum flest tilbúin til þess að leggja nokkuð að mörkum til þess að vernda umhverfi okkar og sneiða hjá mengun. Þannig hefur skapast samhugur um úrvinnslugjald fyrir umbúðir og förgun spilliefna, ásamt skilagjaldi á einnota drykkjarvöruumbúðir, svo nokkuð sé nefnt.

Almennt hefur verið byggt á þeirri grundvallar reglu að gjald er innheimt við innflutning erlendrar vöru eða við sölu á samsvarandi innlendri framleiðslu. Það fé sem þannig verður til hefur verið í umsýslu hagsmunaaðila sem hafa greitt fyrir endurvinnslu, endurnýtingu og förgun þess úrgangs sem af viðkomandi vöru stafar. Að því hefur verið stefnt að tekjur og gjöld fyrir hvern vöruflokk standist á. Þetta fyrirkomulag hefur þótt trúverðugt og hefur því ríkt sátt um það á milli framleiðenda og neytenda sem eru hinir raunverulegu greiðendur fyrir lokavinnsluna.

Á þessari reynslu þurfum við að byggja og halda áfram að fóta okkur á þeirri braut sem við höfum nú þegar markað. Í þessu felst að við reynum í enn ríkari mæli að beita raunhæfum aðgerðum til þess að bæta umhverfi okkar. Við eigum ekki að líta svo á að upptaka gerða Evrópusambandsins um úrgangsmál séu afarkostir sem við verðum að sæta. Um er að ræða góðar fyrirmyndir fyrir mikilvæga þróun sem við eigum að taka þátt í með opnum huga.

Því er þó ekki að leyna að gagnrýni hefur komið fram á þann þátt málsins sem lýtur að kostnaði neytandans, sem fram kemur í hækkuðu vöruverði. Ýmsar tilskipanir Evrópusambandsins eru ekki sniðnar að sérstöðu Íslands en engu að síður verðum við að innleiða þær vegna aðildar okkar að EES. Ekki hafa að mínu mati verið færð nægilega sannfærandi rök fyrir banni við urðun hjólbarða og þær álögur sem förgunarkrafan hefur í för með sér er erfitt að réttlæta.

Það er auðvitað ekki í mínum verkahring að taka afstöðu til þessa eða annars er lýtur að gjaldtöku, það er fyrst og fremst úrlausnarmál hagsmunaaðilanna allra sameiginlega. Þá má geta þess að neytendur geta endurheimt skilagjald þar sem það á við, þegar varan hefur tapað notagildi sínu - og henni er skilað til endurvinnslu eða förgunar.


Ég held að það nýja fyrirkomulag á sorphirðu á Eyjafjarðarsvæðinu sem hér verður kynnt sé mikilvægt framfaramál. Það mun leiða til þess að úrgangur verður flokkaður í mun ríkari mæli. Það mun draga úr því að lífrænn úrgangur verði urðaður í sama magni og nú er gert sem aftur leiðir til þess að mengun jarðvatns verður minni og að minna verður um myndun ósoneyðandi lofttegunda í rotnun úrgangsins. Í heildina verða urðunarstaðir minni og rekstrarkostnaður þeirra mun lækka.
Ágætu fundarmenn.
Það er ekki svo að skilja að við íbúar hér við Eyjafjörð stöndum á byrjunarreit í sorphirðumálum. Því fer fjarri. Veigamiklir áfangar eru að baki sem móta sóknina fram á veginn.

Samstarf sveitarfélaganna í byggðasamlaginu, Sorpeyðing Eyjafjarðar, hefur verið lykill að áfangasigrum okkar. Á sínum tíma var sameinast um einn urðunarstað á Glerárdal og komið á fót móttöku fyrir brotajárn í Krossanesi, spilliefni er safnað á kerfisbundinn hátt og gerðar hafa verið tilraunir til endurvinnslu t.a.m. með heimajarðgerð í Eyjafjarðarsveit, svo lítið eitt sé nefnt af því sem nú þegar hefur áunnist.

Ljóst er að við þurfum að huga að nýjum urðunarstað þar sem gætt verður ýtrustu umhverfis- og mengunarkrafna. Hvernig því verður fyrirkomið og hvernig sorphirðunni verður háttað á næstu árum er megniefni þessa fundar. Það er hlutverk annarra að skýra frá því.

Takk fyrir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta