Koma flóttamanna frá fyrrum Júgóslavíu
Mánudaginn 24. mars eru væntanlegir til landsins 24 flóttamenn frá fyrrum Júgóslavíu. Um er að ræða 6 fjölskyldur sem koma frá Belgrad. Áætlaður komutími til landsins er kl. 15:50. Tekið verður á móti flóttamönnunum á Keflavíkurflugvelli af formanni og ritara Flóttamannaráðs Íslands, aðstoðarmanni félagsmálaráðherra og framkvæmdastjóra Rauða Kross Íslands.
Flóttamennirnir munu verða búsettir í Akureyrarkaupstað en félagsmálaráðherra hefur gengið til samninga við Akureyrarkaupstað vegna móttöku þeirra. Var samningur þess efnis undirritaður í félagsmálaráðuneytinu 12. mars sl.
Undirbúningur fyrir komu flóttamannafjölskyldnanna til Akureyrarkaupstaðar hefur í alla staði gengið mjög vel og er á lokastigi.