Nefnd til að kanna líffræðilega þætti fiskveiðistjórnunarkerfisins.
26. mars 2003.
Fréttatilkynning
Sjávarúvegsráðherra hefur í dag skipað nefnd sem hefur það hlutverk að fara ítarlega yfir hina líffræðilegu þætti fiskveiðistjórnunarkerfisins og skila tillögum um ráðstafanir, sem leiði til betri nýtingar á aflanum, meiri verðmæta eða bætts ástands fiskistofna.
Meðal þeirra atriða, sem nefndin þarf að takast á við er hvernig beita megi veiðarfærastýringu, svæðalokunum og efnahagslegum stjórntækjum til þess að bæta gæði hráefnis, jafnframt því að vernda smáfisk og hrygningarfisk. Í þessu sambandi skal nefndin meta notagildi breytilegra stuðla (undir- og yfirstuðla) í þorskígildum ásamt almennu notagildi mælieiningarinnar þorskígildi. Þá skal nefndin fjalla um hvort rétt sé að aðlaga slægingarstuðla betur að ástandi fiskjar hverju sinni eins og segir í skipunarbréfinu.
Þá er nefndinni jafnframt ætlað að skoða hvaða áhrif einstakar stjórnunaraðgerðir geti haft á sókn fiskiskipaflotans, samsetningu fiskistofna og hvort æskilegt sé, miðað við núverandi þekkingu, að stýra veiðum eftir stofnhlutum.
Loks er nefndinni falið að skoða reynslu nágranna okkar s.s. Færeyinga af veiðarfærastýringu og svæðalokunum.
Nefndina skipa: Tyggvi Þór Herbertsson, formaður, Árni Bjarnason, Björn Ævar Steinarsson, Elínbjörg Magnúsdóttir, Guðrún Marteinsdóttir, Kristján Þórarinsson, Oddur Sæmundsson, Sjöfn Sigurgísladóttir og Tumi Tómasson
Nefndin skal skila áfangaáliti fyrir 01.01.2004.
Sjávarútvegsráðuneytið