Hoppa yfir valmynd
26. mars 2003 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samræmd stúdentspróf í framhaldsskóla


Til þeirra er málið varðar.

Menntamálaráðuneytið tilkynnir hér með að ný reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra stúdentsprófa í framhaldsskólum nr. 196/2003, sbr. lög um framhaldsskóla nr. 80/1996, hefur tekið gildi. Við gildistökuna fellur eldri reglugerð nr. 914/2002 um sama efni úr gildi. Þá er ennfremur tilkynnt að ráðuneytið dregur til baka bréf dags. 10. jan. 2003 sent skólanefndum og skólameisturum framhaldsskóla varðandi framkvæmd samræmdra stúdentsprófa.

Samkvæmt reglugerðinni verða samræmd stúdentspróf haldin tvisvar á ári, á prófatíma framhaldsskólanna í maí og desember.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði reglugerðarinnar verður samræmt stúdentspróf fyrst lagt fyrir í íslensku í maí 2004 og síðan í desember sama ár. Nemendum sem útskrifast með stúdentspróf í lok vor- eða haustannar 2004 er ekki skylt að þreyta samræmt stúdentspróf í íslensku.

Í maí 2005 verður fyrst prófað úr þremur greinum: íslensku, ensku og stærðfræði og velja nemendur þá tvær greinar af þremur.

Ákvörðun um prófdag verður tilkynnt síðar en hún er tekin í samráði við Námsmatsstofnun sem sér um framkvæmd prófanna. Námsmatsstofnun mun kynna framkvæmdina nánar á fundum með skólunum á komandi hausti.

Hjálagt fylgir reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra stúdentsprófa í framhaldsskólum nr. 196/2003. Reglugerðina og frekari upplýsingar má einnig nálgast á vefsíðu menntamálaráðuneytisins. Slóðin er www.menntamalaraduneyti.is. Þess er óskað að skólar sjái um að kynna efni reglugerðarinnar fyrir nemendum, kennurum og öðru starfsfólki skólans.

(Mars 2003)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum