Undirritun loftferðasamnings á milli Íslands og Kína
Nr. 032
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, og Yang Yuanyuan, flugmálaráðherra Kína, undirrita á morgun loftferðasamning á milli Íslands og Alþýðulýðveldisins Kína.
Samningurinn, sem var áritaður í Peking 26. nóvember sl., heimilar tilnefndum flugfélögum hvors ríkis um sig að stunda reglubundið áætlunarflug með farþega, farangur, frakt og póst milli landanna. Hvort ríki um sig getur tilnefnt þrjá áfangastaði í hvoru landi auk þriggja staða til millilendingar á leiðinni. Sérstakt samkomulag við loftferðasamninginn gerir einnig ráð fyrir heimildum fyrir óreglubundinni þjónustu milli landanna tveggja og heimild til handa flugfélögum hvors ríkis um sig til að halda uppi flugþjónustu á tilgreindum leiðum í samvinnu við flugfélög frá öðrum ríkjum, s.s. með sameiginlegum flugnúmerum eða annarskonar samvinnu. Samningurinn og samkomulagið taka gildi þegar við undirritun.
Loftferðasamningurinn skapar grundvöll fyrir áætlunarflug á milli landanna, auk þess sem hann er ein meginforsenda útrásar íslenskra frakt- og farþegaflugfélaga í þessum heimshluta. Í Kína er sjötta mesta flugumferð í heimi og hvergi er eins mikill vöxtur í fraktflutningum og í Asíu.
Undirritun samningsins við Kína er afrakstur heimsóknar íslenskrar sendinefndar, skipaðri embættismönnum og fulltrúum flugrekenda, til Asíu í nóvember á síðasta ári. Í þeirri ferð var loftferðasamningur við Suður-Kóreu einnig áritaður og er búist við að hann verði undirritaður á næstu mánuðum. Þá er áætlað að ljúka samningaviðræðum um loftferðasamninga við Singapúr, Hong Kong og Macau á þessu ári.
Jafnframt hafa íslensk stjórnvöld nýlega lagt til við 24 önnur ríki að gerður verði loftferðasamningur milli þeirra og Íslands og afhent þeim samningsdrög í því skyni. Ríkin eru í Asíu, Afríku, Mið- og Suður-Ameríku og Evrópu.
Undirritun loftferðasamningsins við Kína fer fram í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu kl. 10:30 á morgun, 2. apríl.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 1. apríl 2003