Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Breyting á sveitarstjórnarlögum

Nýlega var samþykkt á Alþingi frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum. Lögin öðlast þegar gildi.

Helstu breytingar sem lögin hafa í för með sér varða ákvæði VI. kafla laganna, er fjallar um fjármál sveitarfélaga og hlutverk eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Helstu nýmæli eru eftirfarandi:

Í 6. gr. laganna er að finna ákvæði sem kveður á um skyldu sveitarstjórnar til að gæta ábyrgðar í meðferð fjármuna sveitarfélagsins og tryggja örugga ávöxtun þeirra. Tilgangur ákvæðisins er meðal annars sá að takmarka þátttöku sveitarfélaga á hlutabréfamarkaði. Í sömu grein er einnig kveðið á um skyldu sveitarstjórnar til að tryggja á hverjum tíma umráðarétt sveitarfélagsins yfir fasteignum sem eru nauðsynlegar til að rækja lögboðin verkefni þess.

Til að tryggja vandaða málsmeðferð við töku ákvarðana sem geta haft áhrif á fjárhag sveitarfélagsins er í 7. gr. laganna kveðið á um að sveitarstjórn verði að afla álits sérfróðs aðila áður en hún staðfestir samninga um framkvæmdir eða þjónustu við íbúa sem gilda eiga til langs tíma og hafa í för með sér verulegar skuldbindingar fyrir sveitarsjóð. Þetta gildir einnig um samninga um sölu og endurleigu fasteigna sveitarfélaga sem nauðsynlegar eru til að sveitarfélög geti rækt lögskyld verkefni sín.

Í sömu grein er mælt fyrir um skyldu sveitarstjórnar til að tilkynna eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga um ákvarðanir um sölu fasteigna sem falla undir veðsetningarbann 2. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga. Skal eftirlitsnefnd þá kanna fjárhagsleg áhrif sölunnar á rekstur sveitarfélagsins og getur nefndin sett fram tillögur við sveitarstjórn um ráðstöfun söluandvirðis eða ávöxtun þess.

Þá er í lögunum lögð aukin áhersla á það almenna hlutverk eftirlitsnefndarinnar að fylgjast með þróun fjármála sveitarfélaga og er m.a. lagt til að ákvæði 74.–80. gr. sveitarstjórnarlaga, er varða eftirlit með fjármálum sveitarfélaga, verði gerð að sérstökum kafla til að undirstrika mikilvægi þeirra.

Aðrar breytingar sem lögin hafa í för með sér á VI. kafla sveitarstjórnarlaga eru þær að framvegis verður skylt að afgreiða fjárhagsáætlun næsta árs fyrir lok desembermánaðar, þ.e. áður en fjárhagsárið hefst, en áður var ekki skylt að afgreiða fjárhagsáætlun fyrr en í lok janúarmánaðar. Þá hafa sveitarstjórnir framvegis tvo mánuði til að afgreiða þriggja ára áætlun eftir að árleg fjárhagsáætlun hefur hlotið afgreiðslu sveitarstjórnar. Einnig eru tekin af tvímæli um að form þriggja ára áætlunar skuli vera á formi ársreiknings.

Af öðrum ákvæðum laganna má nefna að í 2. gr. er nýmæli sem kveður á um þagnarskyldu starfsmanna sveitarfélaga um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara. Ákvæðið er efnislega samhljóða ákvæði í 32. gr. sveitarstjórnarlaga, að því er varðar þagnarskyldu kjörinna fulltrúa.

Loks fela lögin í sér breytingu á 44. gr. sveitarstjórnarlaga sem miðar að því að taka af vafa um heimildir sveitarstjórna til að fela nefndum, ráðum, stjórnum og öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins fullnaðarákvörðun mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins enda leiði slíkt til hagræðingar, skilvirkni og hraðari málsmeðferðar. Skilyrði eru að kveðið verði á um slíkt fyrirkomulag í samþykktum sveitarstjórnar, að mál varði ekki verulega fjárhag sveitarfélagsins og að ákvæði laga eða eðli máls mæli ekki sérstaklega gegn framsali.

Rétt er að geta þess að auk þeirra breytinga sem lögin hafa í för með sér stendur yfir í ráðuneytinu vinna við mótun reglna um meðhöndlun langtímaskuldbindinga í bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélaga. Lögð er áhersla á að þeirri vinnu ljúki sem fyrst.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta