Fyrsti fundur embættismannanefndar Norðurskautsráðsins í formennskutíð Íslendinga
Nr. 034
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Fyrsti fundur embættismannanefndar Norðurskautsráðsins í formennsku Íslands, verður haldinn á Grand Hotel, 9.-10. apríl 2003 og hefst kl. 9:00. Fundinn sækja háttsettir embættismenn frá aðildarríkjum ráðsins auk fulltrúa frumbyggja, alþjóðasamtaka, frjálsra félagasamtaka og vísindamanna, m.a. á sviði umhverfisrannsókna, alls á annað hundrað þátttakendur.
Norðurskautsráðið er vettvangur átta aðildarríkja, Bandaríkjanna, Danmerkur, Finnlands, Kanada, Noregs, Rússlands, Svíþjóðar og Íslands, um samvinnu á sviði umhverfismála og sjálfbærrar þróunar. Samstarfið innan ráðsins felur m.a. í sér mengunarvöktun, mat á ástandi lífríkis norðurslóða og aðgerðir til að sporna gegn mengun. Að auki sinnir ráðið málefnum sem lúta að lífsskilyrðum og lífskjörum fólks á norðurslóðum. Rannsókna- og vísindastarf ráðsins fer fram á vettvangi sjö starfshópa og hafa tveir þeirra skrifstofur sínar á Akureyri.
Sem formennskuríki Norðurskautsráðsins 2002-2004, leggur Ísland sérstaka áherslu á að efla samstarf aðildarríkjanna á sviðum sem geta með beinum hætti gagnast íbúunum til bættra lífsskilyrða. Í þeim tilgangi leiðir Ísland gerð skýrslu um mannlíf á norðurslóðum (Arctic Human Development Report). Dregnar verða saman upplýsingar um fólk á svæðinu og aðstæður þess, með þróun sameiginlegra verkefna í huga. Annar liður í viðleitni Íslands til að efla hinn mannlega þátt samstarfsins er alþjóðleg ráðstefna sem haldin verður hér á landi í október um notkun upplýsingatækni á norðurslóðum. Lögð verður sérstök áhersla á fjarnám og fjarlækningar.
Meðal helstu verkefna sem unnið er að á vettvangi Norðurskautsráðsins, og rædd verða á fundinum, er umfangsmikil athugun á áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðum sem nú stendur yfir. Niðurstöður athugunarinnar munu varpa ljósi á margvísleg áhrif hlýnandi veðurfars á vistkerfi lands og sjávar. Verkefninu er ætlað að skapa grundvöll fyrir stjórnvöld til að bregðast við breytingum af völdum loftslagsbreytinga og verður sérstak skjal með stefnumarkandi tillögum unnuð með hliðsjón af vísindalegum niðurstöðum. Afrakstur þessa starf verður kynntur í skýrslu sem kemur út á næsta ári. Í henni verður m.a. sérstakur kafli um fiskveiðar sem Ísland hefur tekið að sér að skrifa.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 7. apríl 2003