Reglugerð um leit og björgun á landi og samstarf lögreglu og björgunarsveita
Reglugerð
um leit og björgun á landi og
samstarf lögreglu og björgunarsveita.
I. kafli.
Almenn ákvæði.
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.
Gildissvið.
Reglugerð þessi tekur til hlutverks, skipulags og stjórnunar lögreglu og björgunarsveita vegna leitar og björgunar á landi sem fellur undir yfirstjórn lögreglustjóra skv. 6. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og önnur verkefni sem heyra undir lögreglu.
2. gr.
Orðskýringar.
Orðskýringar.
Leit og björgun merkir leit að týndu fólki og björgun mannslífa og verðmæta. Undir leit fellur leit að týndu fólki hvort heldur það er týnt vegna slysa eða hefur villst. Undir björgun fellur að koma í veg fyrir frekara slys, bjarga fólki úr hættu og veita lífsbjargandi aðstoð.
Leitarskipulag merkir það skipulag aðgerða sem notað er við að skipuleggja leit að týndu fólki.
Tæknileg stjórn merkir beina verkstjórn björgunarsveitarmanna, stjórnun þeirra verkþátta sem undir viðkomandi heyra svo sem útfærsla við lausn verkefna og stjórn eigin liðsafla varðandi björgunar-, hjálpar- og leitarstörf þar sem forgangsröðin er björgun, afstýring sérstakrar hættu og að hefta slys og afleiðingar þess. Sá sem fer með tæknilega stjórn ákvarðar hvernig tiltækum liðsafla sem undir hann heyrir er beitt og forgangsraðar verkefnum. Hann hefur heimild til að veita fjölmiðlum upplýsingar um þau atriði, í samráði við þann sem fer með heildarstjórn. Sá sem sinnir heildarstjórn getur gripið ínní störf tæknilegs stjórnanda eftir samráð við hann ef hann verður þess var að ekki fæst nóg að gert.
II. kafli.
Dagleg skipan leitar og björgunar.
Dagleg skipan leitar og björgunar.
3. gr.
Hlutverk lögreglu.
Hlutverk lögreglu.
Lögreglan hefur m.a. það hlutverk að aðstoða borgarana þegar hætta steðjar að. Henni ber skylda til þess að veita borgurunum hjálp þegar slíkt ber undir og annast dagleg björgunarstörf í samstarfi við slökkvilið og sjúkraflutningaaðila.
Lögreglustjórar fara með yfirstjórn og bera ábyrgð á leit og björgun á landi, hver í sínu umdæmi. Þeim ber að samhæfa störf þeirra sem koma að leitar- og björgunaraðgerðum. Lögreglan kallar björgunarsveitir til aðstoðar ef þörf krefur.
Þegar lögreglan kallar björgunarsveitir til starfa skal lögreglustjóri skipa lögreglumann sem vettvangstjóra samræmdra aðgerða lögreglu og björgunarsveita. Skal hann annast heildarstjórnun aðgerða, sem fulltrúi lögreglustjóra á vettvangi og tryggja upplýsingaflæði milli lögreglu og björgunarsveita. Björgunarsveitir eru undir stjórn vettvangsstjóra lögreglu og skulu ávallt hafa fullt samráð við hann um þau verkefni sem þeim er falið.
4. gr.
Hlutverk björgunarsveita.
Hlutverk björgunarsveita.
Björgunarsveitir eru hjálparlið lögreglu við leit og björgun á landi og við sérstök gæslustörf. Undir það falla verkefni svo sem leit að týndu fólki, hjálpar- og björgunarstörf vegna óveðurs og ófærðar og björgunarstörf vegna slysa í óbyggðum. Við störf sem hjálparlið lögreglu starfa björgunarsveitir á ábyrgð hennar.
5. gr.
Landsstjórn og svæðisstjórnir.
Landsstjórn og svæðisstjórnir.
Samræmd stjórn björgunarsveita (Landsstjórn), fer með tæknilega stjórn eigin liðsafla við aðgerðir. Landsstjórn er tengiliður björgunarsveita við ríkislögreglustjóra varðandi aðgerðir á landsvísu.
Landsstjórn, í samráði við ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi, afmarkar ákveðin landssvæði og skipar sérstaka svæðisstjórn björgunarsveita sem á svæðinu starfa. Svæðisstjórn er tengiliður björgunarsveita við lögreglu í umdæminu þegar björgunarsveitir eru kallaðar til. Hún starfar í nánu samstarfi við vettvangsstjóra lögreglu, sem ber ábyrgð á framgangi aðgerða og er tengiliður við önnur stjórnvöld í umdæminu. Svæðisstjórn lýtur hans boðvaldi varðandi samræmdar ákvarðanir vegna aðgerða.
6. gr.
Hlutverk ríkislögreglustjóra.
Ríkislögreglustjóri veitir lögreglustjórum aðstoð vegna leitar og björgunaraðgerða og annast viðfangsefni sem eðli málsins samkvæmt eða aðstæðna vegna kalla á miðstýringu eða samhæfingu lögregluliða.
Ríkislögreglustjóri mælir fyrir um skipulag samstarfs lögregluliða við leitar og björgunaraðgerðir.
Ríkislögreglustjóri annast samstarf við lögreglu í öðru landi. Hann er tengiliður við erlend lögregluyfirvöld varðandi björgun og rannsókn slysa.
Ríkislögreglustjóri fer með samskipti lögreglunnar við önnur stjórnvöld en lögreglu sem fara með forræði leitar og björgunaraðgerða og tryggir samráð þeirra við lögreglu.
III. kafli.
Um útköll björgunaraðila.
Um útköll björgunaraðila.
7. gr.
Fyrstu viðbrögð vegna tilkynningar.
Fyrstu viðbrögð vegna tilkynningar.
Til að tryggja samræmda upplýsingaöflun og rétt viðbrögð, skal við móttöku tilkynningar og söfnun upplýsinga í tilvikum sem falla undir leit og björgun, nota sérstök eyðublöð útgefin af ríkislögreglustjóra. Ríkislögreglustjóri gefur einnig út samræmda gátlista um fyrstu aðgerðir að höfðu samráði við Landsstjórn björgunarsveita.
8. gr.
Útköll vegna verkefna fyrir lögreglu.
Útköll vegna verkefna fyrir lögreglu.
Björgunarsveitir sinna útköllum vegna beiðna frá lögreglu um almenna aðstoð vegna óveðurs eða annarrar vár svo og aðstoðarbeiðna frá fólki sem er í vandræðum vegna ófærðar eða annarrar neyðar. Einnig vegna leita og slysa í óbyggðum svo og öðrum þeim tilvikum þar sem lögregla þarf aðstoð hjálparliðs og búnaður og þjálfun björgunarsveita kemur að notum svo sem gæslu vegna lokunar á svæðum sem lokað hefur verið vegna hættuástands.
Við minniháttar tilfelli svo sem tilvik þar sem einungis er þörf á aðstoð björgunarsveitarmanna með einni björgunarsveitarbifreið getur lögregla haft beint samband við viðkomandi björgunarsveit. Við útköll vegna leita og annarra stærri tilvika skal útkallið fara fram í gegnum svæðisstjórn.
Við útköll vegna sérstakra gæslustarfa fyrir lögreglu, annarra en gæslu á svæðum sem lokað hefur verið vegna hættuástands skal haft beint samband við forsvarsmenn heildarsamtaka björgunarsveita.
9. gr.
Skipulag vettvangs- og leitarstjórnunar.
Skipulag vettvangs- og leitarstjórnunar.
Við aðgerðir þar sem björgunarsveitir starfa til aðstoðar lögreglu skal unnið samkvæmt samræmdu vettvangsskipulagi útgefnu af ríkislögreglustjóra að höfðu samráði við Landsstjórn björgunarsveita. Aðgerðum skal stýrt af vettvangsstjóra lögreglu með fulltingi sameiginlegrar vettvangstjórnar sem mönnuð er af lögreglu og viðkomandi svæðisstjórn.
IV. kafli.
Ýmis ákvæði.
10. gr.
Viðbragðsáætlanagerð.
Lögreglustjórar hver í sínu umdæmi setja nauðsynlegar viðbragðsáætlanir að höfðu samráði við svæðisstjórnir vegna verkefna innan umdæmisins sem ekki falla undir skipulag almannavarna, sbr. lög um almannavarnir.
Ríkislögreglustjóri setur leiðbeiningar um viðbragðsáætlanagerð að höfðu samráði við Landsstjórn björgunarsveita. Hann skal einnig setja nauðsynlegar viðbragðsáætlanir á landsvísu.
11. gr.
Samhæfð þjálfun.
Samhæfð þjálfun.
Ríkislögreglustjóri og Landsstjórn björgunarsveita skulu tryggja samræmda þjálfun milli lögreglu og björgunarsveita í aðgerðar- og vettvangstjórnun. Árlega skulu haldnar sameiginlegar æfingar með þátttöku beggja aðila.
Leit að týndu fólki er liður í rannsókn lögreglu og skulu björgunarsveitir fá sérstaka fræðslu um aðkomu að rannsóknarvettvangi.
12. gr.
Aðgerðir á forræði annarra en lögreglu.
Aðgerðir á forræði annarra en lögreglu.
Samráð skal vera á milli lögreglustjóra umdæmis og svæðisstjórnar björgunarsveitar vegna leitar og björgunaraðgerða sem falla undir önnur stjórnvöld en lögreglu.
Ef um er að ræða leit að týndum loftförum annast ríkislögreglustjóri og landsstjórn björgunarsveita samskipti við Flugmálastjórn og tryggja samræmingu lögregluliðanna og svæðisstjórna við leitarskipulag Flugmálastjórnar sem fer með leitarstjórn sbr. lög um loftferðir en lögreglan tekur við stjórn á vettvangi eftir að loftfar finnst. Lögreglan skal veita Flugmálastjórn aðstoð samkvæmt lögreglulögum
Lögreglustjórar fara með stjórn aðgerða á strandstað sbr. lög um skipsströnd og vogrek og starfa björgunarsveitir við aðgerðir frá landi á ábyrgð lögreglu við slík tilvik.
13. gr.
Gagnasafn um framkvæmd leitar að týndu fólki.
Gagnasafn um framkvæmd leitar að týndu fólki.
Lögreglustjórar skulu án tafar, senda ríkislögreglustjóra afrit skýrslna um allar leitir að týndu fólki.
Ríkislögreglustjóri skal safna þeim upplýsingum sem honum berast með skýrslum skv. 1. mgr. í eitt heildarsafn upplýsinga um framkvæmd leitar að týndu fólki. Gagnasafnið skal aðeins hafa að geyma ópersónugreindar upplýsingar. Heimilt er þó að tilgreina þar kyn og aldur eða aldursbil. Ríkislögreglustjóri og Landsstjórn björgunarsveita skulu annast úrvinnslu upplýsinga úr gagnasafninu með það að markmiði að upplýsingarnar nýtist við síðari tíma leitarskipulag.
14. gr.
Forgangsakstur á ökutækjum björgunarsveita.
Forgangsakstur á ökutækjum björgunarsveita.
Ef um er að ræða verkefni á forræði lögreglu skal ökutækjum björgunarsveita ekki ekið í forgangsakstri úr bækistöð á leið á vettvang né annars staðar nema að skýr fyrirmæli séu gefin um slíkt frá lögreglu.
15. gr.
Lagastoð og gildistaka.
Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 3. mgr. 6. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, ásamt síðari breytingum og öðlast þegar gildi.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 7. apríl 2003
Sólveig Pétursdóttir.
Björn Friðfinnsson.