Hagsmunagæsla innan EES - Ráðstefna á vegum utanríkisráðuneytisins
Nr. 035
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Föstudaginn 11. apríl næstkomandi mun utanríkisráðuneytið standa fyrir ráðstefnu um betri og markvissari hagsmunagæslu (lobbýisma) innan Evrópska efnahagsvæðisins (EES). Markmið ráðstefnunnar er að kynna þær aðferðir sem einstakir hópar beita við að koma málefnum sínum á framfæri innan Evrópusambandsins. Til þess að ræða þetta málefni koma hingað til lands:
Suzanne R. Sene staðlasérfræðingur hjá Viðskiptadeild fastanefndar Bandaríkjanna gagnvart ESB. Hún hefur meira en tuttugu ára reynslu af samskiptum Bandaríkjanna við Evrópusambandið;
Donald MacInnes forstjóri Scotland Europa, svæðisskrifstofu sem hefur í meira en tíu ár staðið vörð um hagsmuni Skotlands gagnvart ESB;
Enrique Tufet-Opi framkvæmdastjóri Weber Shandwick / Adamson, sem er eitt af stærstu og öflugustu hagsmunagæslufyrirtækjum á sviði Evrópumála í Brussel.
Leitast verður við að miðla gagnlegum upplýsingum um hvernig fyrirtæki, sveitarfélög, samtök og stofnanir geta gætt hagsmuna sinna gagnvart ESB löggjöf og dæmi tekin um hvernig staðið hefur verið að málum. Andrés Magnússon, fyrrum starfsmaður ESB í Brussel og núverandi framkvæmdastjóri Samtaka verslunarinnar mun reyfa málefni tengdum innflutningi vara til Íslands, Davíð Egilsson forstjóri umhverfisstofnunarinnar, munu fjalla um löggjöf ESB sem haft hefur áhrif hér á landi og Derek Mundell frá SR-Mjöli mun segja frá reynslu fyrirtækisins þegar litlu munaði að útflutningur á fiskimjöli frá Íslandi yrði bannaður í ESB löndum.
Ráðstefnan verður haldin í utanríkisráðuneytinu og hefst kl. 13.00. Að loknum fyrirlestrum framsögumanna munu þrír vinnuhópar kanna hvaða ályktanir megi draga af þeim og svara spurningum þar að lútandi. Framsögumenn munu sitja í hópunum. Fundurinn fer fram á ensku.
Þátttökugjald er kr. 12.500. Þátttöku má staðfesta í síma 545 9935 eða á netfangið [email protected]. Þar sem fjöldi þátttakenda er takmarkaður er ráðlagt að skrá sig sem fyrst. Fundarstjóri verður Grétar Már Sigurðsson skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 8. apríl 2003