Íslenski haförninn er alfriðaður.
Í tilefni af dómi hæstaréttar nr. 449/2002
Í nýgengnum dómi Hæstaréttar nr. 449/2002 var sýknað fyrir brot gegn nánar tilteknum ákvæðum í lögum nr. 64/1994 um vernd friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og fyrir brot gegn lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, sbr. auglýsingu nr. 425/1997. Í dómnum var ekki talið ljóst hvort sá staður sem örn kynni að verpa á gæti fallið undir "lífsvæði dýra" skv. 2. mgr. 6. gr. villidýralaga. Í því ákvæði segir að ávallt skuli "gæta fyllstu varkárni og nærgætni gagnvart villtum dýrum og lífsvæðum þeirra og forðast óþarfa truflun". Var umrætt ákvæði ekki talið nægilega ótvírætt og glöggt þannig að hægt væri að sakfella fyrir brot gegn ákvæðinu.
Að mati ráðuneytisins breytir framangreindur dómur engu um það að íslenski haförninn er alfriðaður samkvæmt 1. mgr. 6. gr. villidýralaga, sbr. 1. gr. og 17. gr. sömu laga. Friðunin tekur einnig til eggja og hreiðra arnarins. Þá breytir dómurinn því ekki að aldrei má veiða haförn í þeim tilgangi að koma í veg fyrir tjón, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 456/1994 um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum. Ráðuneytið telur hins vegar með hliðsjón af niðurstöðu Hæstarréttar að mæla þurfi fyrir um það afdráttarlaust í lögum að óheimilt sé að hindra arnarvarp.
Ráðuneytið telur nauðsynlegt að það komi fram að dómurinn breytir í engu um það að varpstaðir arna eru friðaðir og óheimilt er að raska varpstöðum arna, hindra varp þeirra, eða hrófla við hreiðrum, eggjum og ungum arnarins.
Til þess að styrkja verndun arnarstofnsins og tryggja friðun við varpstaði arna hefur umhverfisráðuneytið ákveðið að hefja þegar í stað endurskoðun og styrkingu ákvæða laga um arnarstofninn til þess að tryggja vernd stofnsins á öllum stigum lífsferils hans ásamt þeim svæðum sem mikilvægust eru til viðgangs stofnsins. Eftirlit með varpi undirbúningi þess og varpstöðum arnarins verður aukið verulega í þeim tilgangi að koma í veg fyrir truflun við varpstaði nú í vor og tryggja sem bestan varpárangur. Umhverfisráðherra hefur farið þess á leit við Bændasamtök Íslands að þau beiti áhrifum sínum til þess að tryggja vernd arnarstofnsins. Munu samtökin óska eftir því við umbjóðendur sína sem átt geta hlut að máli einkum æðarræktendur að þeir virði lög um friðun arnarins og að umræddur dómur breyti í engu umgengni þeirra við haförninn.
Umhverfisráðuneytið skorar á alla landsmenn að standa vörð um arnarstofninn og vernda varpstaði arnarins.