Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2003 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Sivjar Friðleifsdóttur, umhverfisráðherra, á málþingi um campylobacter á Hótel Loftleiðum, föstudaginn 11. apríl 2003.

Ágætu fundarmenn,

Það er mér sérstök ánægja að fá tækifæri til að ávarpa þetta málþing hér í dag. Eitt af mínum fyrstu embættisverkum sem umhverfisráðherra var aðkoma að málum vegna Campylobacter faraldurs sumarið 1999. Það var mjög lærdómsríkt.

Það kom mér í opna skjöldu að eftirlit með matvælum á Íslandi væri í höndum þriggja ráðuneyta og velti fyrir mér hvernig einfalda mætti kerfið og gera það skilvirkara. Nú á vordögum var lagt fram frumvarp til kynningar á Alþingi um Matvælastofnun þar sem lagt er til að eftirlit með matvælum heyri undir einn ráðherra og eina stofnun og verði flutt af sveitarstjórnarstigi yfir til ríkisins.

Að minni tillögu samþykkti ríkisstjórnin að farið yrði í sérstaka rannsókn á útbreiðslu Campylobacter í matvælum, húsdýrum og umhverfi og orsökum sýkinga í mönnum. Niðurstaða þeirrar rannsóknar var skýrsla fulltrúa Hollustuverndar ríkisins, Landlæknisembættisins sóttvarnalæknis, Yfirdýralæknisembættisins, Sýklafræðideildar Landsspítala - Háskólasjúkrahúss og Tilraunastöðvar HÍ að Keldum, sem kynnt var í nóvember sama ár.

Niðurstaða rannsóknarinnar var í meginatriðum sú að sýkillinn væri útbreiddur í umhverfi og dýrum. Niðurstöður matvælarannsókna og athugun á faraldsfræði sýndu að neysla kjúklinga var helsti áhættuþáttur Campylobacter sýkinga.

Í framhaldi af áðurnefndri rannsóknarskýrslu skipaði ég nefnd um framkvæmd mála. Hún setti fram framkvæmdaáætlun sem hafði metnaðarfull markmið um að draga verulega úr sýkingum í mannfólki. Þessu skyldi náð með því að draga úr mengun í alifuglum meðal annars með auknum smitvörum í framleiðsluferli alifugla og frystingu mengaðra kjúklinga. Jafnframt var lögð áhersla á að fræða neytendur um smitvarnir með varúðarmerkingum á umbúðum alifulglakjöts og með útgáfu fræðsluefnis.

Umhverfisráðuneytið hefur lagt áherslu á að fylgja þessari framkvæmdaáætlun fast eftir. Í því skyni lagði ráðuneytið fram fé til útgáfu bæklings um matarsjúkdóma sem dreift var inn á öll heimili í landinu árið 2000. Við beittum okkur einnig fyrir breytingum á matvælalöggjöfinni og breytti reglugerð um umbúðamerkingar matvæla í þá veru að framleiðendum er nú skylt að setja fram leiðbeiningar um smitvarnir á umbúðir vörunnar. Þá lagði ráðuneytið einnig fram fé til að kanna mætti útbreiðslu bakteríunnar í smærri vatnsveitum og einkaveitum þar sem óhreinsað yfirborðsvatn er í sumum tilfellum notað sem neysluvatn.

Eins og ég hef hér rakið hefur á síðustu þremur árum verið gripið til viðamikilla fyrirbyggjandi aðgerða sem skilað hafa verulegum árangri.

Aðgerðir á borð við frystiskyldu kjúklinga, skyldumerkingar umbúða alifuglakjöts, aukinna krafna um rekjanleika matvæla og fræðsluátak til almennings um smitvarnir í eldhúsum segja sitt. Þannig hefur vægi áhættumats og áhættustjórnunar í matvælaeftirliti verið aukið.

Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Campylobacter sýkingum með uppruna á Íslandi hefur fækkað um 80% á þessu tímabili.

Þetta gerist á sama tíma og sýkingum hefur fjölgað í nágrannalöndum okkar. Enda hefur árangurinn hér á landi vakið verðskuldaða athygli víða og þykir til eftirbreytni og er talað um "íslensku aðferðina". Þannig hafa til dæmis Norðmenn farið að dæmi okkar og sett frystiskyldu á Campylobacter mengaða kjúklinga.

Fækkun sýkinga um 80% er ekkert smáræði. Tekist hefur að hlífa hundruðum einstaklinga frá sýkingum. Ætla má að tugir ef ekki hundruðir milljóna króna sparist árlega vegna þessa árangurs. Sérfræðingar mátu kostnaðinn við Campylobacter faraldurinn fyrir þremur árum á bilinu 160 - 320 milljóna króna. Það að fjöldi sýkingatilfella sé um fimmtungur af því sem var 1999 þýðir sparnað fyrir skattgreiðendur upp á 130 - 260 milljónir króna á ári.

Þetta er mikill árangur. Árangur sem byggður er á samstilltu átaki stjórnsýslunnar, eftirlitsaðila, rannsóknarstofnana, framleiðenda og neytenda.

Átak og stjórnun byggð á samráði hefur enn sannað sig. Unnið hefur verið að úrbótum í sátt við framleiðendur og neytendur. Samstarfsvilji framleiðenda hefur skipt miklu. Þannig sýndu framleiðendur samstarfsvilja sinn í verki með því að kosta að hluta fræðsluherferð fyrir neytendur sumarið 2000. Neytendasamtökin hafa einnig verið í mjög góðu samstarfi við okkur til að sem bestur árangur næðist.

Ég þakka þetta árangurríka samstarf. Starf sem hefur lagt styrkan grunn að öryggi og heilnæmi íslenskra matvæla fyrir okkur öll.

Ég segi málþing þetta sett.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta