Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2003 Mennta- og barnamálaráðuneytið

50 ára afmæli Menntaskólans að Laugarvatni

Ávarp, Tómasar Inga Olrich, menntamálaráðherra 50 ára afmæli Menntaskólans að Laugarvatni 12. apríl 2003.

Ávarp, Tómasar Inga Olrich, menntamálaráðherra
50 ára afmæli Menntaskólans að Laugarvatni
12. apríl 2003


Forseti Íslands, ráðherrar, alþingismenn, skólameistari og aðrir góðir gestir!

Ólíkt flestum öðrum þjóðum eiga Íslendingar gögn um uppruna sinn, varðveittar munnlegar heimildir og síðar skráð gögn og skjalfest. En það er ekki aðeins uppruninn sem þannig er staðfestur. Þessar heimildir eru í sjálfu sér kraftbirting þeirrar almennu áráttu Íslendinga og djúpstæðu þarfar, sem þjóðin fann frá upphafi til að skrá upplýsingar, vinna úr þeim ný verðmæti, nýta þær til menningarauka og sem grundvöll vísinda og miðla þeim til komandi kynslóða. Heimildirnar vitna fyrst og fremst um menntun þjóðarinnar, sem er í senn stærsta vöggugjöf þjóðarinnar frá upphafi og verðmætasti þjóðararfur Íslendinga.

Með þessa vöggugjöf hefur þjóðin farið vel, þótt á ýmsu hafi gengið á vegferð hennar. Hversu bág sem lífskjör Íslendinga voru, þegar mest blés í móti, leituðust þeir alla tíð við að halda læsi almennu og náðu ótrúlegum árangri í þeim efnum. Getum við ekki síst þakkað kirkjunni og prestastéttinni fyrir það að þegar aðstæður bötnuðu á ofanverðri 19. öld, var þjóðin, þótt fátæk væri, betur búin til átaka en ýmsar þær þjóðir sem bjuggu við meiri efni en minni alþýðumenntun. Nú á tímum göngum við lengra en aðrar þjóðir í þeirri viðleitni að bjóða fámennum byggðum möguleika til menntunar, ekki aðeins grunnmenntunar heldur og til framhaldsnáms og háskólanáms.

En því er þetta rifjað upp hér, á þessum stað og á þessari stundu, að við erum hér saman komin til að heiðra merka stofnun, sem var brautryðjandi á þessu sviði. Rætur á Menntaskólinn á Laugarvatni víða, í héraðsskólunum, í menntahugsjónum aldamótamannanna svonefndu, og allt til hinna fornu menntasetra þjóðarinnar á Suðurlandi, Haukadals, Odda og Skálholts. Elstu skjöl, sem finnast í skjalasafni menntamálaráðuneytisins eru í möppu, sem heitir menntaskóli í sveit, án nánari staðsetningar. Í bréfi menntamálaráðherra, Björns Ólafssonar, frá 21. maí 1951 er getið kennslu Laugarvatnsskóla í lærdómsdeildargreinum veturinn 1950-1951 og degi síðar ritar Bjarni Bjarnason skólastjóri Laugarvatnsskóla, þ.e. héraðsskólans á Laugarvatni, ráðherra bréf, þar sem óskað er heimildar til starfsemi þriggja lærdómsdeilda veturinn 1951-1952. Í febrúar 1953 er síðan að finna drög að auglýsingu um skólameistaraembætti menntaskóla í sveit, sem í ráði sé að stofna skv. fjárlagaheimild Alþingis 1953.

Frá þessum tímamótum hefur skólinn átt farsælan feril undir stjórn landskunnra skólameistara: Sveins Þórðarsonar, Ólafs Briem, Jóhanns S. Hannesssonar og Kristins Kristmundssonar, sem allir hafa starfað í anda einkunnarorða skólans, "manngildi, þekking, atorka". Þau einkunnarorð, sem eru þýðing Baldvins Einarssonar á hugtakinu "humanismus" valdi fyrsti skólameistarinn, dr. Sveinn Þórðarson, Menntaskólanum að Laugarvatni.
Nú er nýtekinn við stjórnvöl hinn yngsti í þessari röð, Halldór Páll Halldórsson, og er honum óskað alls velfarnaðar á sömu braut.
Ég lít svo á að framfarir í menntamálum og uppbygging framhaldsskóla hafi reynst eitt máttugasta verkfæri okkar til að efla byggðir landsins og efla viðspyrnu gegn byggðaröskun. Við störfum nú á grundvelli nýrrar löggjafar um skólastigin þrjú neðan háskólastigsins. Fjölbreytileiki náms eykst jafnt og þétt. Ný tækni, sem býður upp á kosti dreif- og fjarnáms, flytur námskosti til dreifðari byggða betur en nokkru sinni fyrr. Símenntun eflist og fjölbreyttir menntunarkostir bjóðast þeim sem hafa aðeins grunnmenntun og þarfnast endurmenntunar og endurnýjunar í starfi.

Í þessu mikla uppbyggingarstarfi menntunarkosta, sem lúta ekki síst að hinum dreifðu byggðum Íslands, tekur Menntaskólinn að Laugarvatni þátt af lífi og sál. En í dag minnumst við ekki síst þess að í þessum efnum var skólinn brautryðjandi. Brautryðjandi er stórt hugtak og ekki heiglum hent að rísa undir því. Það gerir hins vegar Menntaskólinn að Laugarvatni með sóma og reisn.

Yfir þessum stað er mikil reisn og sérstaða. Hún stafar bæði frá landinu, fólkinu og sögunni. Burstirnar hans Guðjóns Samúelssonar eru tákn þessarar reisnar, tákn héraðsskólans, sveitaskólans. Það er mér sérstök ánægja að geta veitt því atbeina að byggingar gamla héraðsskólans skuli varðveittar og tryggt að reisnarlegt yfirbragð þeirra setji um ófyrirsjáanlega framtíð svip á staðinn.

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með framtaki menntaskólanema um allt land, þótt oft sé það úr fjarlægð gert. Nemendur Menntaskólans að Laugarvatni hafa ekki verið eftirbátar annarra og oft skarað fram úr. Gamlir nemendur skólans segja mér að vegna sérstöðu skólans bindist nemendur hér sterkari böndum en ella, vináttutengslum sem endast allt lífið. Slík tengsl sýna betur en nokkuð annað það mennta- og menningarstarf, sem hér hefur blómstrað.
Á hálfrar aldar afmæli Menntaskólans að Laugarvatni óska ég skólanum og því öfluga samfélagi nemenda, kennara og skólastjórnenda, sem heldur upp merki hans, árnaðar og heilla um ókomna framtíð.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum