Hugtakasafn Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins
Þriðjudaginn 15. apríl opnar Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins hugtakasafn sitt á vefslóðinni www.hugtakasafn.utn.stjr.is.
Unnið hefur verið að söfnun hugtaka og orðasambanda í safnið allt frá stofnun Þýðingamiðstöðvarinnar árið 1990. Tvö síðastliðin ár hefur verið unnið að endurskoðun og aðlögun safnsins með vefsetningu þess í huga enda er vefsetning íslenskra hugtakasafna liður í tungutækniverkefni ríkisstjórnarinnar.
Hugtökin og orðasamböndin eru að stórum hluta úr tilskipunum og reglugerðum sem falla undir EES-samninginn en þýðing þeirra yfir á íslensku er einmitt helsta verkefni Þýðingamiðstöðvarinnar. Einnig eru í safninu hugtök sem tengjast öðrum milliríkjasamningum, svo sem Schengen-samningnum og Samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þá eru í safninu fjöldamörg hugtök sem tengjast Evrópusambandinu og stofnunum þess. Nú í apríl 2003 eru í safninu um 34 000 grunnfærslur en hverri þeirra fylgja á bilinu 6-8 upplýsingareitir. Ný hugtök eru reglulega færð inn.
Aðgangur að safninu er öllum opinn.