Evrópuráðstefnan í Aþenu
Nr. 041
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Evrópuráðstefnan var haldin í dag í Aþenu í sjöunda skipti. Ísland tók þátt í ráðstefnunni í annað skipti. Gunnar Snorri Gunnarsson ráðuneytisstjóri sat fundinn fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Á Evrópuráðstefnunni var að þessu sinni fjallað um tengsl Evrópusambandsins við hina nýju nágranna stækkaðs ESB í austri og suðri.
Ráðstefnuna sóttu þjóðarleiðtogar og utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna núverandi og verðandi, umsóknarríkjanna þriggja, þ.e. Búlgaríu, Rúmeníu og Tyrklands, EFTA ríkjanna fjögurra, Króatíu, Bosníu, Serbíu og Svartfjallalands, Makedóníu, Albaníu, Úkraínu og Moldóvíu. Rússland tók að auki þátt í ráðstefnunni og aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan, var sérstakur gestur.
Í ályktun ráðstefnunnar er því fagnað að með stækkun ESB hafi ríki Evrópu og almenningur náð mikilvægum áfanga í að tryggja samfélag byggt á lýðræði, lögum og virðingu fyrir grundvallarmannréttindum og með því skapað forsendur fyrir frekari framförum og öryggi. Leiðtogarnir lögðu sérstaka áherslu á að stækkun ESB megi ekki verða til að skapa ný skil í álfunni og ályktuðu að stefna bæri að því að nágrannar ESB nytu ávaxtanna af stækkun sambandsins óháð því hvort þeir sæktust eftir aðild. Leiðtogarnir staðfestu að það væri forgangsverkefni að taka höndum saman um að búa til svæði friðar, stöðugleika, hagsældar og félagslegra framfara.
Innlegg Íslands og ályktun ráðstefnunnar fylgja hjálögð.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 17. apríl 2003