Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samningur um gerð fjölskylduvogar

Félagsmálaráðuneytið, fyrir hönd fjölskylduráðs, hefur leitað til Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri um gerð svokallaðrar Fjölskylduvogar. Voginni er ætlað að vera safn lykiltalna, nokkurs konar vísitala fjölskyldumálanna. Upphaf verkefnisins má rekja allt aftur til ársins 1997 en þá var samþykkt á Alþingi þingsályktun um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar. Í kjölfarið hafa ýmsir opinberir aðilar unnið að slíkri stefnumótun og hefur sú vinna leitt í ljós hve mikilvægt er að til séu aðgengilegar og traustar upplýsingar um ýmsa mikilvæga þætti er lúta að málefnum fjölskyldunnar. Fullyrða má að á Íslandi séu upplýsingar um lífsskilyrði fólks, lífsaðstæður þess og fleiri atriði tengd velferð af skornum skammti. Þar af leiðandi skortir löggjafann og sveitarstjórnirnar upplýsingar og almenna vitneskju um hvaða áhrif ýmsar pólitískar aðgerðir og ákvarðanir hafa á heilsufar fólksins, almennan hag þess og velferð.
Fjölskylduvoginni er ætlað að veita stjórnmálamönnum og öðrum er koma að ákvörðunum er varðar fjölskylduna þann grundvöll er stuðlað geti að því að markmið fjölskyldustefnunnar náist. Með öðrum orðum er hugmyndin sú að vinna að þróun líkans eða aðferðar sem yrði kerfisbundinn hluti af stjórntækjum opinberra aðila þegar um er að ræða velferð og heilsufar fjölskyldna í landinu.
Verkefni fjölskyldnanna hafa breyst mikið samfara breyttum lífsháttum síðastliðna öld eða svo, en þó ekki síst á síðustu áratugum. Samfélagið er orðið flóknara og heimilislífið hefur leitast við að aðlaga sig að þessum breytingum. Í nútímanum er farsælt samspil atvinnu og fjölskyldulífs grundvallaratriði í lífi fólks. Breytt verkefni fjölskyldnanna stafa meðal annars af löngum vinnudegi beggja foreldra utan heimilis. Því hafa skólarnir orðið að taka við auknu hlutverki í uppeldi barnanna og aldraðir eyða ævikvöldinu í ríkari mæli en áður á stofnunum. Fjölskyldan í dag verður að gefa einstaklingnum rótfestu og hún er vettvangur lífsnauðsynlegra tilfinninga-tengsla. Þrátt fyrir aukið hlutverk skólanna í uppeldi æskunnar er umönnun og uppeldi barna enn í dag mikilvægasta verkefni fjölskyldunnar. Fjölskylduvoginni er ætlað að gefa opinberum aðilum betri forsendur til að styðja við fjölskylduna í sínu mikilvæga hlutverki.

Undirritun samningsins um hönnun og þróun mælitækis fyrir vísitölu fjölskyldumála fór fram í dag í húsakynnum félagsmálaráðuneytisins.

Nánari upplýsingar:
Félagsmálaráðuneytið: Þór G. Þórarinsson, s. 545 8100, [email protected]
Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri: Kjartan Ólafsson, s. 463 0555, [email protected]

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum