Dagur umhverfisins 25. apríl 2003
Dagur umhverfisins verður haldinn hátíðlegur í fimmta sinn föstudaginn 25. apríl n.k.. Dagurinn er fæðingardagur Sveins Pálssonar, fyrsta íslenska náttúrufræðingsins og þess manns sem einna fyrstur hvatti til aðgerða gegn skógareyðingu á Íslandi og orðaði þá hugsun sem nú kallast sjálfbær þróun.
Í ár er dagurinn tileinkaður farfuglum og af því tilefni hefur umhverfisráðherra ákveðið að veita 500.000 króna styrk til þess að koma upp aðstöðu fyrir almenning til fuglaskoðunar á Höfn í Hornafirði.
Náttúrufræðistofnun Íslands vann sérstakt fræðsluefni fyrir grunnskólanemendur um íslenska farfugla sem er aðgengilegt á vef stofnunarinnar
Sveitarfélögin Akureyri, Garðabær, Hafnarfjarðarbær, Hveragerði, Mýrdalshreppur, Rangarþing ytra, Reykjanesbær, Skagafjörður, Siglufjarðarbær, Snæfellsbær, Ölfus, Torfulækjarhreppur og Vestmannaeyjabær bjóða íbúum sínum upp á fjölbreytta viðburði í tilefni dagsins. Nánar...
Boðið verður upp á Farfuglaleik í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum frá og með Sumardeginum fyrsta og fram á næsta sunnudag.
Eins og undanfarin ár var auglýst eftir tilnefningum um fyrirtæki, sem vegna verka sinna og athafna á síðasta ári, er þess verðugt að hljóta umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins fyrir árið 2002. Ákveðið hefur verið að veita fyrirtæki verðlaun í ár og verða þau veitt föstudagsmorguninn 25 apríl kl. 9:30. Fjölmiðlum verður boðið að vera við athöfnina og verður tilkynnt hvar athöfnin fer fram og um leið um hvaða fyrirtæki er að ræða, fyrr þann sama morgun.
Fréttatilkynning nr. 12/2003
Umhverfisráðuneytið