Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2003 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Textun á innlendu dagskrárefni í Sjónvarpinu

Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að íslenskt dagskrárefni verði öllu aðgengilegra og 19. maí 2001 var samþykkt þingsályktunartillaga þess efnis að fela menntamálaráðherra að stuðla að því að íslenskt sjónvarpsefni verði textað, eftir því sem við verði komið, til hagsbóta fyrir heyrnarlaust og heyrnarskert fólk.


Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að íslenskt dagskrárefni verði öllu aðgengilegra og 19. maí 2001 var samþykkt þingsályktunartillaga þess efnis að fela menntamálaráðherra að stuðla að því að íslenskt sjónvarpsefni verði textað, eftir því sem við verði komið, til hagsbóta fyrir heyrnarlaust og heyrnarskert fólk.

Nú hafa forsætisráðuneyti, menntamálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti, að tillögu menntamálaráðherra, tekið höndum saman til að auka textun á innlendu efni í Sjónvarpinu til mikilla muna. Alls leggja ráðuneytin til 4,5 millj. kr., eða 1,125 þús. kr. hvert, af því fé sem þeim er ætlað af sameiginlegu ráðstöfunarfé ríkisstjórnar til að auka við textaða dagskrá Sjónvarpsins. Þar með eykst framboð textaðs efnis í Sjónvarpinu úr 5.000 mínútum í 14.000 mínútur árlega. Með þessu verður unnt að texta þá þætti í Sjónvarpinu sem ekki eru sendir út beint, en árlegur kostnaður við það er áætlaður 7 millj. kr.

Fram kom á Textaþingi s.l. haust að talið er að um 30 þús. manns geti ekki fylgst með íslensku dagskrárefni að nokkru gagni. Átak þetta í textunarmálum mun m.a. gagnast heyrnarskertum, eldri borgurum og nýbúum sem vilja bæta íslenskukunnáttu sína og stuðla að því að þessir hópar fái notið innlends sjónvarpsefnis til jafns við aðra.

Menntamálaráðuneytið, 23. apríl 2003

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum