eSchola 2003
Nú í apríl hófst á Netinu viðburður sem kallast eSchola 2003 en hann stendur til 9. maí nk. Það er Evrópska skólanetið sem stendur að eSchola en Ísland er aðili að því.
Þetta er í þriðja sinn sem eSchola er haldið. Markmiðið er að gefa kennurum tækifæri til kynna upplýsingatækniverkefni sín, starfa með öðrum og vinna til verðlauna. Lögð er áhersla á bestu notkun á upplýsingatækni í kennslu, hvaðanæva að úr Evrópu. Þetta er upplagt tækifæri fyrir kennara til að læra af öðrum kennurum í Evrópu og sýna þeim eigin verkefni. Í eSchola býðst einnig þátttaka í samfélagi kennara og skóla í Evrópu og víðar. Kennarar og nemendur geta hist, skipst á hugmyndum og unnið að margskonar sameiginlegum verkefnum. Í ár verður lögð áhersla á að para saman skóla sem vinna saman á Netinu. Einnig er stefnt að því að beina sjónum einkum að ákveðnum þemum, s.s. sérþörfum fatlaðra, listum og vísindum.
Verðlaunasamkeppni Náms á neti (eLearning Awards) er meðal þess sem eSchola býður upp á. Þátttakendur skrá netefni sem þeir hafa gert og geta þannig átt möguleika á verðlaunum. Verðlaun eru veitt nýstárlegum verkefnum á sviði upplýsingatækni í skólastarfi. Í fyrra tóku 760 þátt, nokkur íslensk verkefni komust í úrslit og tvö unnu til verðlauna.
Nánari upplýsingar um eSchola eru á vefnum: eschola.eun.org og á vef Menntagáttar, menntagatt.is/eschola Hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi eSchola á eschola.eun.org/subscribe. eSchola-tengill á Íslandi er Björn Sigurðsson, [email protected], veitir hann nánari upplýsingar.