Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2003 Utanríkisráðuneytið

Fundur Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra með rektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna

Nr. 044

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, átti í dag fund með Hans van Ginkel, rektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna, um samstarf Íslands við skólann. Ísland greiðir kostnað af og hýsir tvær deildir háskólans, þ.e. Jarðhitaskólann og Sjávarútvegsskólann.

Tilefni komu Hans van Ginkel til Íslands er 25 ára afmæli og setning Jarðhitaskólans og árlegur vorfundur forstöðumanna deilda Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem haldinn er í Reykjavík á morgun og miðvikudag. Fundinn sækja um 20 forstöðumenn hinna ýmsu deilda Háskóla Sameinuðu þjóðanna, en þær eru starfræktar í fjölmörgum löndum.

Á fundi ráðherra með rektor kom m.a. fram að mikil ánægja er með starfsemi Jarðhitaskólans og Sjávarútvegsskólans. Hafa báðar skóladeildirnar skapað sér ákveðinn sess á alþjóðavettvangi, hvor á sínu sviði. Í viðræðum ráðherra og rektors kom einnig fram eindreginn vilji beggja til þess að styrkja tengsl og tryggja stöðu skóladeildanna innan Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Skýrði ráðherra frá því að ætlunin væri að skipa sérstakan starfshóp sem falið verður að meta starfssemi Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og koma með tillögur að áframhaldandi eflingu skólanna.

Samstarf Íslands við Háskóla Sameinuðu þjóðanna og rekstur tveggja deilda hans hér á landi er mikilvægur þáttur í aðstoð Íslands við þróunarlönd.

Hjálagt fylgir ávarp utanríkisráðherra við setningu Jarðhitaskólans. Ávarpið er á ensku.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 28. apríl 2003



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta