Iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra undirrita samning um innleiðingu staðardagskrár
Iðnaðarráðuneyti og
umhverfisráðuneyti
Dagur umhverfisins,
25. apríl 2003.
Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra og Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra skrifuðu í dag undir samning um innleiðingu Staðardagskrár 21 í fámennum sveitarfélögum og stuðning við áform um að gera Hrísey að sjálfbæru samfélagi. Skrifað var undir samkomulagið í Hrísey á Degi umhverfisins, 25. apríl.
Iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra munu beita sér fyrir því að til þessara samstarfsverkefna verði til ráðstöfunar samtals 8 m.kr. á ári á þriggja ára tímabili, þar af 7 m.kr. á ári af fjárveitingu iðnaðarráðuneytis til framkvæmdar byggðaáætlunar. Af þessu fé fara 2 m.kr. á ári í þrjú ár til sérstaks þróunarverkefnis um sjálfbært samfélag í Hrísey. Stuðningur stjórnvalda við verkefnið í Hrísey mun m.a. renna til þess að ljúka við gerð skýrslu um orkuvinnslu í Hrísey og til þess að kaupa 50 jarðgerðarílát, sem notuð verða til þess að jarðgera lífrænan úrgang og draga þar með verulega úr því sorpmagni sem flutt er frá Hrísey.
Í byggðaáætlun 2002-2005 er bent á mikilvægi sjálfbærrar þróunar enda miðar hún að því að samþætta efnahagsleg, félagsleg og umhverfisleg markmið. Í áætluninni er lögð áhersla á að opinberar aðgerðir sem ætlað er að efla atvinnulíf og treysta byggð í landinu stuðli jafnframt að sjálfbærri þróun samfélagsins.
Á grundvelli þessa er lögð áhersla á að styrkja umhverfisstarfsemi sveitarfélaga með áherslu á framkvæmd Staðardagskrár 21. Staðardagskráin er langtímaáætlun sem nær til allra þátta í rekstri sveitarfélaga. Öflugt starf fer fram undir merkjum Staðardagskrár í fjölmörgum sveitarfélögum, en þörf er á að styðja við framkvæmd hennar í smærri sveitarfélögunum, m.a. með ráðgjöf og þekkingarmiðlun. Ávinningur sveitarfélaganna er þríþættur, þ.e. beinn efnahagslegur ávinningur, samfélagslegur og menningarlegur ávinningur og betri nýting auðlinda.
Iðnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti munu sameiginlega vinna að verkefnum er lúta að eflingu sjálfbærrar þróunar í smærri sveitarfélögum í samræmi við þær áherslur sem fram koma í byggðaáætlun 2002-2005. Samstarf ráðuneytanna er mótað af samkomulaginu sem skrifað var undir í Hrísey í dag, en einstök verkefni verða ákveðin fyrir eitt ár í senn.