Nefnd um framtíðaruppbyggingu HSS
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 29. apríl 2003
Nefnd um framtíðaruppbyggingu, þróun og skipulag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur með bréfi dagsettu 14. apríl 2003, skipað nefnd um framtíðaruppbyggingu, þróun og skipulag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, bæði heilsugæslu- og sjúkrahúsþjónustu. Nefndinni er ætlað að koma með tillögur um áframhald framkvæmda við stofnunina að loknum þeim áföngum, sem ákvarðanir hafa verið teknar um og í ljósi þeirra áfanga sem þegar er lokið. Nefndin skal taka tillit til þeirra breytinga sem fyrirsjáanlegar eru á aldurssamsetningu íbúa svæðisins. Skoðað verði sérstaklega hvernig nýta megi best þá hluta D-álmu HSS sem ekki hafa verið innréttaðir. Í vinnu sinni skal nefndin taka tillit til þeirra álitsgerða, sem þegar liggja fyrir, svo sem skýrslu vinnuhóps sem skilað var til ráðherra í október 2001 um "Heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum og framtíðarhlutverk D-álmu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja". Nefndin skal skila fyrstu áfangaskýrslu sinni fyrir 1. júlí 2003.
Formaður nefndarinnar er Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Aðrir nefndarmenn eru Magnús Skúlason, deildarstjóri. Ingimar Einarsson, skrifstofustjóri. Sigríður Snæbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri. Jón Gunnarsson og Hallgrímur Bogason.